21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2720)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vildi hefja mál mitt með því að þakka háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) fyrir þá drengilegu vörn, er hann veitti okkur flm. með ræðu sinni, við 1. umr. þessa máls.

Jeg ætla ekki að vera langorður, enda hafa þessir háttv. þingmenn, hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og hv. 4. þm. Reykv. (M. J.), rakið ástæður þær, er liggja til grundvallar því, að skifting þessi nái fram að ganga, og hefi jeg litlu við þær að bæta. Þó er það eitt atriði enn, sem jeg vildi minnast á, en það er afstaða Hnífsdælinga í máli þessu. í sjóþorpinu Hnífsdal eru nú á 4. hundrað manns, og auk þess margir bæir í dalnum, svo þarna er um allmikinn mannfjölda að ræða, enda hafa þeir unað því illa að geta ekki haft guðsþjónustu hjá sjer í þorpinu. Varð það því að samkomulagi, að presturinn messaði þar í barnaskólahúsinu 6–10 sinnum á ári. Var það svo á síðustu árum síra Þorvalds og á meðan háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) þjónaði þar vestra og fram á fyrsta ár núverandi sóknarprests. En á síðasta ári lögðust þessar guðsþjónustur niður í Hnífsdal, vegna annríkis prestsins, og harma menn það mjög.

Hnífsdælingar hafa lengi hugsað um að koma upp kirkju hjá sjer og margir góðir og áhugasamir menn unnið ósleitilega að því takmarki, og hefir þegar fengist loforð fyrir allmiklu fje í því skyni. En kirkjubygging þessi kemur ekki að neinum notum á meðan núverandi ástand ríkir, því það er ekki til neins að reisa guðshús, sem presturinn, sökum annríkis, getur aldrei messað í. Þetta er nú ein hlið þessa máls, og mjer finst hún þann veg, að eftir henni megi taka.

Jeg get ekki betur sjeð en að ástæður meiri hl. allsherjarnefndar sjeu á litlum rökum bygðar, og get því tekið undir alt, sem háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir sagt til að hnekkja þeim. Það er auðvelt að bera brigður á þessa erfiðleika, en með sanngirni getur enginn sagt, að við höfum farið of langt í lýsingum okkar á ástandinu.

Viðvíkjandi ferðakostnaði prestsins skal jeg geta þess, að síðastliðið ár, eftir því, sem honum sagðist sjálfum frá, fjekk hann 4 ferðir ókeypis, en úr sínum vasa varð hann þó að borga fyrir hinar ferðirnar 15–1600 kr., og er þetta engin smáræðisupphæð fyrir efnalitinn mann.

Það má ef til vill segja sem svo, að kostnaðurinn sje ekki aðalatriðið í þessu máli, því kostnað þennan mætti bæta prestinum á annan hátt.

Aðalatriðið er það, að prestinum er gersamlega um megn að þjóna embættinu. Presturinn þarf oft að dvelja langdvölum í Bolungarvík, og hafa margir í Ísafjarðarkaupstað yfir þessu kvartað, því á Ísafirði og Eyrarsveit er fullkomin þörf á prestinum svo að segja daglega, ekki síst ef hann stundar embætti sitt samviskusamlega, eins og á sjer stað um núverandi prest. Það er og sárgrætilegt fyrir sóknarprestinn að sjá fram á það að geta ekki gegnt embættisskyldu sinni fullkomlega. Er jeg þess og fullviss, að núverandi prestur mun sækja frá prestakallinu fljótlega ef lagafrv. þetta nær ekki fram að ganga. Jeg vildi og óska þess, að þeir háttv. þm., sem ekki vilja samþykkja frv. þetta, eins og það liggur fyrir, greiði atkv. móti því, að það gangi til 3. umr., svo örlög þess hjer í háttv. deild verði sjeð nú þegar. Jeg hefi lofað sóknarprestinum að láta hann fljótlega vita um afdrif málsins hjer á þinginu, og það getur staðið honum á talsvert miklu að fá að vita það sem fyrst, þar sem hann hefir þá í huga að sækja um annað prestakall, sem nú er laust.

Háttv. frsm. meiri hl. allshn. (P. O.) gat þess, að þetta væri mikill baggi fyrir ríkissjóð. Jeg neita því ekki, að það er nokkur baggi, þótt jeg alls ekki geti samþykt útreikning háttv. frsm. (P. O.). Jeg byggi á, að þetta muni hafa í för með sjer 3000–3500 króna kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. En þar frá mun óhætt að draga erfiðleikauppbót fyrir þjónustu Hólsprestakalls, ca. 2000 krónur. Jeg býst ekki við, að nokkur prestur fáist fyrir minna framvegis. Eru þá ekki eftir nema 1000 til 1500 kr., er varla getur talist mikið fje. Jeg fæ ekki annað sjeð en að þessar sóknir eigi fylsta rjett á því, að presti sje gert fært að þjóna þeim sæmilega. Sóknirnar eru fólksmargar, og gjöldin í prestlaunasjóð því mikil. Tel jeg því ómaklegt, ef þingið ekki vill sinna rjettmætum kröfum fólksins í þessu efni. Jeg veit, að mönnum í Hnífsdal er mikið áhugamál að reisa þar kirkju og fá Ísafjarðarprest til að hafa þar ákveðna guðsþjónustudaga.

Eldra fólkið þar er sjerstaklega trúhneigt og þykir mjög leitt að geta ekki hlýtt á guðsþjónustu nema endrum og eins. Þeirri þörf eiga þessir menn rjett á að fá fullnægt, ekki síður en aðrir, en henni verður ekki fullnægt fyr en prestakallinu er skift.