21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (2725)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg skal vera stuttorður. Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) gaf okkur flm. vitnisburð um, að rjett væri skýrt frá í lýsingu okkar, þar sem hann sagði frá því, að hann hefði nærri því orðið fyrir stórslysi að vorlagi, á ferð milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar.

Þegar nærri liggur við slysum að vorlagi, þá er það ekki síður að vetrarlagi, og því fremur sem landleiðin er mun hættulegri á öllum tímum en sjóleiðin. Jeg vil leyfa mjer að bæta því við, til að leiðrjetta þá, sem halda, að auðvelt sje að þjóna Bolungarvík frá Ísafirði, og virðast ætla, að Hólssókn sje aðeins kauptúnið Bolungarvík, að í þessari sókn eru 11 býli með 16 búendum. Jeg hygg, að Hólssókn megi teljast í meðallagi erfitt prestakall. (P.O.: Er kirkja í Skálavík?). Háttv. frsm. meiri hl. (P. O.) virðist hugsa, að prestar hafi ekki annað að starfa en halda guðsþjónustur. Jeg vil taka það fram, að jeg þekki presta á Vesturlandi, sem starfa mikið að öðru, og vil jeg þar til nefna eftirlit með barnafræðslu. Jeg veit, að presturinn okkar hefir orðið að dvelja langdvölum úti í Bolungarvík á vorin, til að líta eftir uppfræðslu barna í prestakallinu, og svo hefir það verið um þá þrjá presta, sem jeg hefi þekt þar.

Háttv. frsm. meiri hl. (P. O.) vildi leggja það í mín orð, að jeg hefði viðurkent, að við hefðum gert heldur mikið úr kostnaðinum. Jeg vona, að hv. þm. taki það trúanlegt, að presturinn borgaði síðastliðið ár beint út 15–1600 kr. í ferðakostnað. Hann verður auðvitað að borga uppihald í Bolungarvík meðan hann dvelur þar. Hann verður að leigja þar herbergi alt árið og hafa þar rúm og þjónustu, því að það kemur fyrir, að hann verður að dvelja þar dögum og vikum saman.

Háttv. 2. þm. N.-M. (B. H.) segir, að prestarnir vilja heldur sveitaprestaköll. Það má vel vera, ef þeir eru aldir upp í sveit, að þeir vilji það heldur en kaupstaðaprestaköll. En okkar prestur er nú alinn upp í kaupstað.

Það hefir eðlilega ekki dregið hann nein sjerstök ástæða til að sækja um Ísafjarðarprestakall. En það stóð svo á, að hann þjónaði því hálft ár fyrir hv. 4. þm. Reykv. (M. J.), sem varð að fara burtu, og að hann ekki fór þaðan mun vera af því, að hann hefir felt sig við íbúana og þeir við hann.

Svo verður að líta á það, að Ísafjarðarprestakall hefir altaf þótt eitt af veglegri prestaköllum landsins. Jeg held því eindregið fram, að presturinn sæki ekki burt af öðrum ástæðum en þeim, að hann sjer sjer ekki fært að anna embættinu, því að hann er mjög skyldurækinn embættismaður, svo og því, að embættið er ekki lífvænlegt með þeim kostnaði, sem embættisreksturinn hefir í för með sjer.

Jeg vænti þess, að háttv. þm., ef þeir ætla sjer ekki að láta frv. komast í gegn, felli það frá 3.umr, því að prestinum er umhugað um að fá að vita um afdrif þess. Jeg vil svo leyfa mjer að óska nafnakalls, þá er atkvæðagreiðsla fer fram.