29.03.1921
Neðri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (2735)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Eiríkur Einarsson:

Það virðist liggja í loftinu á þessu þingi að spara, og í samræmi við það hafa ýmsir hv. þm. viljað takmarka sem mest öll fjárframlög til embættaskipunar. Vil jeg í því sambandi minna á kröfur þær, sem fyrir liggja, um bætta læknaskipun, víðsvegar að af landinu. En ef fjölgun læknanna nær ekki fram að ganga, sem engar líkur eru til að þessu sinni, tel jeg ekki rjett að fjölga öðrum embættum, sem ef til vill mætti telja miður nauðsynleg. Ef fjölga á embættum, verður að byrja á rjetta endanum. Jeg er ekki með þessu að mæla á móti ástæðum háttv. flm. (S. St.) hvað örðugleikana þar vestra snertir, heldur aðeins að undirstrika það, að engin ástæða er til þess að hafa fleiri presta en lækna, og að frekar beri að fjölga þeim síðari, ef á annað borð er fjárhagslega hægt að fást við nokkra fjölgun. Jeg vildi þess vegna leysa úr því máli, sem hjer er til umræðu, með því að bera upp rökstudda dagskrá, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Þar eð margir alþm. eru vitanlega þeirra skoðunar, að gæta verði sparnaðar á fje ríkissjóðs um þessar mundir, og eigi er annað sýnna en t. d. nauðsynlegar umbætur á læknaskipun landsins verði óframkvæmdar nú, einkum af þessum sparnaðarástæðum, þá verður að telja það því sjálfsagðara að fresta stofnun annara embætta, sem eigi er hægt að telja eins nauðsynleg og nokkur fjölgun hjeraðslækna, og tekur deildin því fyrir næsta mál á dagskrá.