29.03.1921
Neðri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2736)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Þorsteinn Jónsson:

Af því að jeg var ekki viðstaddur atkvgr. um þetta síðast, vil jeg gera grein fyrir atkv. mínu nú. Mjer blandast ekki hugur um það, að óvíða á landinu er eins mikil nauðsyn á skiftingu prestakalls og þarna. En hins vegar er jeg andstæður því, að tekin verði sú stefna að fjölga aftur prestaembættum, en hún virðist nú vera í aðsigi, þar sem hv. allsherjarnefnd hefir látið á sjer skilja, að hún fallist einnig á frv. hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.), um skiftingu Stafafellsprestakalls. (S. St,: Misskilningur.). Með þessu tel jeg því gefið slæmt fordæmi, á þessum vandræðatímum, og af þeirri ástæðu, að jeg hefi ekki viljað hefja það fordæmi, að byrjað væri á að skifta prestaköllum, þá hefi jeg hætt við að bera fram frv. um skiftingu Kirkjubæjarprestakalls, sem kjósendur mínir höfðu lagt ríka áherslu á að jeg flytti. Sömuleiðis höfðu þeir æskt þess, að jeg og hv. samþm. minn (B. H.) flyttu frv. um skiftingu Hróarstungulæknishjeraðs, sem hjer hefir áður verið margborið fram. En vegna þess, hve mikið vandræðaúlit er nú að öllu leyti, þá höfum við háttv. samþm. minn orðið ásáttir um að flytja þetta frv. ekki heldur. Mjer þætti sanngjarnt, að með tilliti til dýrra ferða milli kirkjusóknanna í Bolungarvík og Ísafirði væri prestinum á Ísafirði veitt sjerstök erfiðleikauppbót.