29.03.1921
Neðri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2741)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Þorleifur Guðmundsson:

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði, að við hefðum getað kveðið upp úr með álit okkar á þessu máli við 2. umr. þessa máls. Jeg fyrir mitt leyti gerði það með atkv. mínu. En jeg þagði, og það hlýtur að hafa miðað til sparnaðar, samkvæmt kenningu þm. (S. St.). En þegar jeg sá, hvernig frv. flaug í gegnum 2. umr., þá vildi jeg þó á síðustu stundu gera grein fyrir minni afstöðu, ef það gæti orðið til þess að snúa einhverjum til rjetts vegar í þessu máli, því, eins og jeg hefi margtekið fram, þá álít jeg þinginu bera skylda til, eins og fjárhag landsins er komið, að vera á móti þeim embættaaukningum, sem sýnilega geta vel beðið.

Viðvíkjandi verðlagsskrárfrv. er það að segja, að jeg hefi lesið það, en jeg hefi kann ske ekki skilið það. En þó ætla jeg, að dýrtíðaruppbótarfrv. hefði vegið meira en þetta verðlagsskrárfrv., sem nú er fram komið, og svo er þess að gæta, að fyrst verður þó að semja verðlagsskrá, svo lög í þessa átt geta varla komið til framkvæmda fyr en a. m. k. seint á þessu ári, eða einhvern tíma á næsta ári.

þá vildi jeg segja hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) það, að jeg lofa alls ekki að greiða atkv. á móti öllum fjárframlögum, og það er fjarri mjer, að vilja láta ríkið skera fje við neglur sjer, þegar um verklegar framkvæmdir er að ræða, sem ágóðavon er að. En hjer er alt öðru máli að gegna. Þetta getur aldrei verið nema baggi fyrir landssjóð, og slíkan bagga eigum við alls ekki að binda honum.

Jeg vil ekki með þessu segja, að prestarnir sjeu með öllu óþarfir, en það eru til embættismenn, sem eru þeim langtum nauðsynlegri og þarfari, eins og t. d. læknarnir. Prestarnir eru þegar allmargir í landinu, og prestastjettin verður að leggja þjóðinni til meira af andlegum auði, áður en við fjölgum þeim eða bætum við laun þeirra.