07.04.1921
Efri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2750)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Nefndin hefir lagt á móti því, að þetta frv. verði samþ., og ber einkum fyrir sig fjárhagsvandræðin, sem yfir standa. Um þetta var nefndin öll einhuga. Að öðru leyti litu nefndarmenn nokkuð ýmsum augum á málið. Jeg lít svo á, að margt muni nú slæðast í gegnum þingið, sem síður skyldi en þetta. En í sjálfu sjer er það ekki nóg ástæða til þess að greiða frv. atkv. Enda er það svo, að þótt fjárhagsástæðan vegi mikið í mínum augum, þá bætist það og við, að jeg er hneigður til að líta svo á, að fremur beri að fækka prestum en fjölga. Störf þeirra hafa verið minkuð nú á síðari árum; meðal annars hefir barnafræðslunni að mestu verið ljett af þeim. Jeg get nokkuð um þetta borið af kunnugleika í sveitum, og þar virðist mjer prestar gætu haft miklu meiri störf en nú er. Fyrir því lít jeg svo á, að hægt sje að komast af með færri presta, en tel þá rjett að launa þá svo vel, að þeir gætu gefið sig við starfi sínu óskiftir.