08.04.1921
Neðri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (2759)

96. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Það verða aðeins örfá orð, því frv. er mönnum kunnugt af umr. um sama mál hjer á þingi í fyrra. Það kom þá fram, að þetta þótti mikil sanngirniskrafa, þó hv. þm. gætu ekki orðið sammála. Rjett nýlega lá mál hjer fyrir hv. deild, sem miklu minni þörf sýndist að athuga nánara, þar sem það fór fram á skýlaust brot á gerðum samningi ríkisins, en var þó vísað bæði til 2. umr. og nefndar. Jeg vona því, að engin hæfa sje í þeim orðasveim, að þm. ætli sjer að fella frv. þetta frá 2. umr., þó að þeir hafi verið að leika sjer að því að hafa prófkosningu á undan 1. umr. Jeg vil styðja till. hv. flm. (J. B.), um að vísa frv. til mentamálanefndar, sem hefir annars litið að gera.