19.02.1921
Efri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

27. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Forsætisráðherra (J.M.):

Í lögunum um alþýðuskóla á Eiðum er svo mælt fyrir, að haust og vor skuli haldið búnaðarnámsskeið við skólann, 3–4 vikur í senn. Þegar skólinn tók til starfa, kom það í ljós, að dómi skólastjóra, að það væri óheppilegt að tvískifta þessu námi, í stað þess að hafa það í einu lagi, og þá á vorin. Telur skólastjóri hagfeldara að hafa það aðeins á vorin, enda kostnaðarminna fyrir utanskólanemendur, og koma meira að gagni fyrir þá, ef námið væri í einu lagi og aðeins á vorin. Hefir hann því farið fram á þessa lagabreyting, og með því að jeg tel ástæður hans og tillögur á rökum bygðar, hefi jeg komið fram með frv. þetta.

Hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) hefir sagt mjer frá, að hann teldi og þörf annarar breytingar á lögum þessum. Eins og þau gera ráð fyrir, eru þar tveir fastir kennarar, skólastjóri og aðstoðarkennari. Auk þess er gert ráð fyrir tímakenslu. Nú er vitanlega ekki auðvelt að fá marga tímakennara svo langt upp í sveit. Við skólann er því nú, fyrir utan kenslukonu í hannyrðum, einn kennari, sem kalla má fastan tímakennara, með umsömdum, föstum launum, sem eru talsvert lægri en laun hins fasta aðstoðarkennara. Þessi fasti tímakennari hefir þó jafnmikið starf sem aðstoðarkennarinn. Er því sanngjarnt, að hann fái sömu laun. Hreinlegast mundi að bæta við öðrum aðstoðarkennara, og það er lagt til í öðru frv., sem stjórnin leggur fram í dag. Jeg býst við, að þetta frv. fari til háttv. mentamálanefndar, og að hún taki það til athugunar, hvort ekki sje rjett að breyta þessu atriði, einnig í sjálfum lögunum um skólann. Jeg skal bæta því við, að þegar tímakennarinn var ráðinn, þá var búist við því, að hann hefði tekjur af því að veita forstöðu gróðrarstöðinni á Eiðum. En það starf er víst niður fallið.

Úr því að jeg fór að minnast á Eiðaskólann, þá þykir mjer rjett að skýra frá því, hvernig hinni fyrirhuguðu húsbyggingu þar líður. Háttv. þm. hefðu mátt búast við því, að hið fyrirhugaða nýja skólahús þar væri nú að minsta kosti langt á veg komið, og því er ekki að neita, að það er afar nauðsynlegt að koma því upp, svo fljótt sem auðið er, svo nauðsynlegt, að varla er hægt að segja, að skólinn komi meira en að hálfum notum fyr en húsið er bygt. Stjórnin gerði og þegar í fyrra vetur ráðstafanir til þess, að hægt væri að byrja á byggingunni þá með vorinu. Teikning og kostnaðaráætlun var gerð, og búist við, eftir því, að húsið mundi kosta um 200,000 kr. Keyptur var viður til hússins og smiðir ráðnir. En þegar að því kom, að byrja skyldi á byggingunni, þá kom það í ljós, að kostnaðurinn mundi verða miklu meiri en áætlað var, og hefir húsameistari sagt mjer, að hefði húsið verið bygt í sumar og vetur. Þá mundi kostnaðurinn hafa numið hátt á 3. hundr. þús. kr. Þá var það og ljóst, að fjárhagsástæður hlutu að versna mjög, svo hætt var við bygginguna að sinni. Mest af viðnum var selt með dálitlum hagnaði, nema máttarviðir, og smiðirnir fengu annan starfa, án kostnaðar fyrir húsbygginguna.

Yfir höfuð leist stjórninni að hætt yrði við allar kostnaðarsamar framkvæmdir, sem á nokkurn hátt yrði auðið að komast af án. Það er ekki gert ráð fyrir, að neitt verði átt við þessa bvggingu í sumar. Það er aðeins hugsanlegt, að það megi undirbúa hana frekar næsta vetur. Mjer hefir þótt það mjög ilt, að húsbyggingin varð að farast fyrir, því að mjer er fyrir margra hluta sakir ant um þennan skóla.