04.03.1921
Neðri deild: 14. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2781)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Flm. (Jakob Möller):

Það er eins um þetta frv. og hitt, sem jeg áðan flutti, að það er samið af bæjarstjórn og falið okkur þm. bæjarins til flutnings, án þess að við viljum í raun og veru gera öll orð þess að okkar orðum. Höfum við því áskilið oss óbundnar hendur um einstök ákvæði þess, eins og greinargerðin ber með sjer. Tveir flm. hafa hvergi komið nálægt samningu frv. og því ekki nema eðlilegt, að þeir hafi eitthvað við það að athuga.

Helstu breytingar, sem frv. fer fram á, eru:

1. Að þeginn sveitarstyrkur svifti menn ekki kosningarrjetti nje kjörgengi til bæjarstjórnar.

2. Að þeim kjósendum verði varnað að neyta kosningarrjettar síns, sem standa í skuld fyrir skattgjaldi til bæjarsjóðs.

Samkvæmt gildandi lögum hafa þeir menn einir kosningarrjett, sem gjalda í bæjarsjóð. En frv. fer fram á að sleppa gjaldskyldunni og sveitarstyrk.

Ýmsum mun nú líklega þykja nóg að gert, þó aðeins yrði fallið frá gjaldskyldunni og ekki meira. — En frv. vill hjer slá tvær flugur í einu höggi og alls ekki meta kosningarrjett manna til peninga. Og þess verður aldrei mjög langt að bíða, að slíkum rjettarkröfum fáist framgengt. Hugsunarháttur manna er nú smátt og smátt að breytast frá því sem áður var, og krafan um það, að fjárhagur manna hafi ekki áhrif á borgaralegan rjett þeirra, er að verða háværari, ekki aðeins erlendis, heldur einnig hjer.

Þessi krafa kemur nú fram hjer í frv., ekki frá einstökum flokki manna, heldur sem almenn krafa bæjarbúa, fyrir munn bæjarstjórnarinnar. Því þó ágreiningur nokkur hafi orðið í bæjarstjórninni um frv., þá hefir hann meira verið um einstök atriði þess. Aðalstefna frv. er samkv. eindregnum vilja meiri hl. bæjarstjórnarinnar.

Jeg skal taka það fram, að það virðist vera nokkurt ósamræmi í frv., þar sem það annars vegar fer fram á, að gjaldskylda sje ekki sett sem skilyrði fyrir kosningarrjetti, en hins vegar þó það skilyrði sett fyrir því, að kjósandinn fái að neyta kosningarrjettar síns, að hann skuldi ekki bæjarsjóði nein gjöld, sem honum ber að greiða. Og jeg skal taka það fram nú þegar, að þetta ákvæði frv. get jeg ekki fallist á. En jeg býst við, að bæjarstjórnin gangi hjer út frá því, að gjöldin sjeu lögð þeim einum á herðar, sem geti borgað, og því stafi greiðsludrátturinn frekar af viljaleysi en getuleysi kjósandans, og megi hann því sjálfum sjer um kenna að vera sviftur kosningarrjettinum.

En dráttur á innheimtunni getur og verið sök innheimtuvalds, en þá væri ekki rjettlátt að láta það koma gjaldanda í koll.

Eins og nú er, þá er þeim mönnum, sem ekki eru aflögufærir, hegnt með því að svifta þá kosningarrjetti. Þetta hljóta menn að finna að er rangt, því örbirgð manna stafar venjulega af óviðráðanlegum ástæðum, heilsubresti, ómegð o. fl. Fyrir þessar sakir eru svo saklausir menn látnir sæta refsingu og settir á bekk með illræðismönnum. Allir hljóta að viðurkenna, að þetta má ekki lengur svo til ganga, og að þessum mönnum bera full mannrjettindi. Helsta ástæðan til að vera á móti þessari sjálfsögðu rjettarbót hefir verið talin sú, að ýmsir óverðugir yrðu þar með kosningarrjettarins aðnjótandi. Það getur vel verið. En hitt er líka víst, að eins og er, fara margir verðugir á mis við þennan rjett.

Það nær því engri átt lengur að binda kosningarrjett manna við fjárhaginn, því fjárhagurinn er engin trygging fyrir því, að maður noti atkv. sitt rjettilega. En hitt er nær sanni, að setja þau skilyrði fyrir kosningarrjetti, að maður sje fjár síns ráðandi, þ. e. hafi ekki verið sviftur fjárforræði, sakir óvits, og í annan stað að maður hafi ekki gerst brotlegur við lög landsins, þannig að mannorðsspjöll hafi af hlotist.

Eins og jeg sagði áður, er þessi sjálfsagða rjettlætiskrafa nú almenn orðin um allan heim. Hún hlýtur að fá framgang, einnig hjer á landi, fyr eða síðar, Og jeg tel hiklaust rjett, að henni verði sem allra fyrst fullnægt, og því beri að samþ. þetta frv. nú þegar, óbreytt í aðalatriðum.