04.03.1921
Neðri deild: 14. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2782)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Gunnar Sigurðsson:

Hv. þm. Dala. (B. J.) hefir að mestu tekið af mjer ómakið, að tala mikið um þetta frv. Jeg get þó ekki orða bundist að minnast á, hve fáránlegt þetta frv. er frá höfundanna hendi.

Aðalstefna frv. er rjettlát, nefnilega sú, að svifta menn ekki kosningarrjetti, þó að þeir hafi þegið sveitarstyrk, því að það er ómannúðlegt og engin sanngirni í að svifta þá kosningarrjetti, sem verða fyrir því óláni að missa heilsuna, og setja þá þar með á borð með glæpamönnum.

Þá er það beint svívirðilegt að taka atkvæðisrjettinn af þeim mönnum, sem verða styrkþurfar sakir þess, að ómegð hleðst á þá. Það geta oft verið nýtustu mennirnir í þjóðfjelaginu, og efnileg börn eru miklu meira virði en skuldir þeirra við sveitarsjóði.

En svo kemur þessi makalausi seinni partur. Það litur út fyrir, að bæjarstjórnin haldi, að hún nái gjöldum til bæjarins betur inn með þessu ákvæði. En það mundi geta haft öfuga afleiðingu. Benda má á, að menn þyrftu ekki annað en segja sig til sveitar rjett fyrir kosningarnar, og ná þá kosningarrjetti. Með þessu ákvæði er líka opnuð leið að hættulegu mútukerfi.

Menn gætu innleitt þá reglu að bjóðast til að greiða útsvar fyrir kjósendur, gegn því, að þeir fylgdu sjer að málum eða sínum flokksmönnum.

Jeg skal svo ekki taka fleira fram að sinni, en jeg vil geta þess, að jeg álít, að færa ætti aldurstakmarkið niður í 21 ár, og mun rökstyðja það nánara síðar.