05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (2793)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Magnús Jónsson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs áður en jeg hjelt, að nokkur annar hefði gert það, vegna þess, að jeg hafði margt að athuga við ræðu hv. frsm. (E. Þ.). En nú hefir verið talað svo mikið, að jeg get orðið stuttorður.

Í greinargerð frv. er það tekið fram, að flm. áskilji sjer óbundnar hendur um efni þess. Ástæðan til þessa hjá mjer var sú, að jeg gat ekki felt mig við síðari part 2. málsgr. Jeg tek að vísu ekki eins djúpt í árinni og þeir, sem neita þessu ákvæði um alt gildi. Það má vel líta á það sem nokkuð slungið ákvæði til þess að ná inn þeim gjöldum bæjarsjóðs, sem ekki er hagfelt að ná inn með lögtaki. En við hlið þessa gagns er svo annað, sem jeg verð að telja hættulegt. Þetta vísar mönnum á þá leið að segja sig til sveitar og halda þannig kosningarjetti sínum, án þess að greiða gjöld sín. Það gæti líka verið bein leið fyrir mútugjafir við kosningar, þannig að ýmsir áhugasamir efnamenn mundu greiða gjöld fyrir menn til þess að eignast atkvæði þeirra. En þar sem háttv. allshn. og allir, sem hafa talað, eru á eitt sáttir um þetta, þá ætla jeg ekki að fara frekar út í það.

Viðvíkjandi aldurstakmarkinu, sem er 25 ár í frv., en 21 ár í brtt. hv. 2. þm. Reykv. (J. B.), þá er jeg sammála hinu síðara fyrir mína parta. En jeg legg ekkert sjerstaklega upp úr þessu atriði. Það er mjög erfitt að draga takmörkin, en einhversstaðar verða þau að vera. Þykir mjer þá eðlilegast, að sami aldur ráði fjárforræði og kosningarrjetti, eins og vafalaust hefir verið um 25 ára aldurinn, og úr því að búið er að lækka fjárræðisaldurinn niður í 21 ár, þá ætti hitt að fylgja á eftir. Það er kunnugt, að menn á aldrinum 21–25 ára hafa haft allmikil áhrif á kosningar, þó þeir ekki hafi kosningarrjett. Það sýnist því vera að spyrna á móti broddunum, án þess að geta það, þegar verið er að meina þeim að kjósa.

Aðallega ætlaði jeg mjer að tala um það, hvort þeir, sem þiggja af sveit, eiga að hafa kosningarrjett eða ekki.

En þar sem svo mikið hefir verið talað um það, get jeg sparað mjer það að mestu.

Mjer finnast orð háttv. nefndar um styrkþegana mjög óviðeigandi. Þó nefndin geti ekki fallist á þetta nýmæli og álíti hættulegt, að þessir menn fengju kosningarrjett, þá var alveg óþarfi fyrir hana að gera það með þessum ummælum. Nefndin talar um að greina styrkþegana — sauðina frá höfrunum. Jeg veit ekki, hverjum nefndin ætlar að framkvæma þessa aðgreiningu, en jeg þekki engin stjórnarvöld, menn eða stofnanir, sem jeg treysti til að framkvæma hana. Slík aðgreining er ómöguleg, fyrst og fremst vegna þess, að það er oftast ekki af neinni einstakri ástæðu, að menn verða styrkþegar, heldur er það venjulega margt, sem hjálpast að í einu. Þó einhver eigi við ómegð eða veikindi að stríða, þá getur altaf verið álitamál, hvort hann ekki hefði getað bjargað sjer, ef hann hefði verið svo og svo útsjónarsamur og duglegur. Um slíkt mætti þrátta lengi árangurslaust. En jeg vil benda nefndinni á, hvort hún ekki vill láta þessa aðgreiningu ná til fleiri, eða heldur hún, að dáðleysi og kæruleysi sje hvergi að finna nema hjá þeim, sem þiggja af sveit? Jeg get talað hjer af eigin reynslu, því jeg hefi verið í fátækranefnd, og jeg veit, að iðjuleysingjanna er ekki fyrst og fremst að leita meðal hinna fátæku, heldur miklu fremur meðal þeirra, sem nóga hafa peningana. Mjer finst þetta ekkert annað en að níðast á mönnum, í skjóli afturgöngu löngu liðins tíma.

Þá er sú ástæða háttv. nefndar, að hún telji ekki rjett að setja sjerstök kosningalög fyrir Reykjavík, því það þurfi að koma samræmi á kosningalög um alt land. Till. hv. þm. Dala. (B. J.) á að gilda um alt land. Annars sje jeg ekki ástæðu til að takmarka sjálfstæði Reykjavíkur eða annara kjördæma landsins í þessu efni. Þegar eitthvert sveitar- eða bæjarfjelag vill ívilna sínum styrkþegum, þá er ekki nema sanngjarnt, að það ráði því. Hjer fer Reykjavík fram á þetta, og jeg sje enga ástæðu fyrir Alþingi til að banna henni það. Hitt er meira efamál, hvort rjett er, að Alþingi fari að troða slíku upp á sveitar- eða bæjarfjelög óbeðið.

Annars er það svo um þetta samræmi, sem verið er að tala um, að það er orðið mjög alment orðatiltæki, en er í rauninni orðagjálfur, sem á víst að merkja það, að menn leggist eitthvað sjerstaklega djúpt, jafnvel þegar þeir vita ekki sjálfir, af hverju þeir hafa komist að niðurstöðunni.

Jeg vona, að hv. deild láti frv. komast fram með brtt. hv. 2. þm. Reykv. (J. B.). Jeg vil alls ekki gera það að fleyg í málið að láta það ná yfir alt land.