05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (2796)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Gunnar Sigurðsson:

Jeg þarf að svara hv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.) örfáum orðum, því hann rangfærði eða misskildi orð mín. Jeg hrakti það aðeins, að mögulegt væri að skifta mönnum í flokka eins og hann gerði, og hjelt því fram, sem enn er óhrakið, að enginn mælikvarði væri til á það, hverjir væru fátækir fyrir sjálfskaparviti og hverjir ekki, enda ætti þjóðfjelagið nóg önnur vopn en þessi til að ná sjer niðri á slíkum mönnum. Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði, að jeg hefði talið skattgjaldsákvæðið endemisvitleysu. Það kann vel að vera, að jeg hafi sagt það, enda stend jeg við það. Umrætt atriði er með öllu ósamkvæmt skoðunum og stefnu nútímans, og vart er hugsanlegt, að aðrir en pólitískir forngripir geti haldið slíku fram.