16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (2800)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Gunnar Sigurðsson:

Fyrst að svo lítur út, að enginn ætlar að hefja umr., þá neyðist jeg til að kveðja mjer hljóðs. enda þótt jeg hafi ekki ætlað mjer að ríða fyrstur úr hlaði. En þeir munu ekki vera komnir í sæti sín enn, sem búast má við að eitthvað hafi að segja og vilji segja áður en gengið verður til atkv. um frv. þetta.

Jeg á litla brtt. á þskj. 319, að færa aldurstakmarkið um kosningarrjett og kjörgengi úr 25 árum niður í 21 ár.

Jeg hefi áður talað fyrir þessari brtt., svo jeg ætti ekki að þurfa að fara mörg um orðum um rjettmæti hennar. En mín sannfæring er sú, að hún sje í alla staði rjettlát og sanngjörn.

Það má vel vera, að jeg sje næmari fyrir þessu af því, að jeg er ungur og get því fremur sett mig inn í hugsunarhátt ungu mannanna heldur en öldurmenni þau, er sæti eiga hjer á þingbekkjunum. Og um sjálfan mig man jeg það, að ekki var jeg minna áhugasamur um stjórnmál á meðan jeg öðlaðist ekki kosningarrjett heldur en jeg hefi verið síðan, enda sárlangaði mig að geta með atkv. mínu sýnt skoðun mína á mönnum og málefnum á þeim árum.

Frá sjónarmiði frjálslynds manns lítur þetta þannig út: Ungir menn ganga til kosninga óbundnir og frjálsir. Hjá þeim ráða hreinni og betri hvatir, er þeir greiða atkv., heldur en hjá þeim, sem eldri eru og rígbundnir við margra ára venju í pólitísku tjóðurbandi. (M. K.: Þetta er „nærmest“ ósvífni). Það geta vitanlega verið undantekningar, þó að jeg sjái ekki beinlínis ástæðu til að telja hv. þm. Ak. (M. K.) þar með. Auk þess er hættara við, að gamlir menn láti fremur stjórnast af hagsmunahvötum. Það kemur langtum síður fyrir unga menn, því fullyrða má, að þeir fari venjulega eftir því, sem þeir álita hreint og gott og samrýmist rjettlætistilfinningu þeirra.

Ungir menn, áhugasamir og framgjarnir, hafa líka opnari augun fyrir mörgu því, er gera þarf til bóta og skifta um til framfara fyrir þjóðina, heldur en þeir, sem aldraðir gerast og stara á gömlu venjurnar.

Jeg skal nefna eitt dæmi, máli mínu til sönnunar. Það eru U. M. F. svo nefndu. Þó að ýmislegt hafi verið fundið fjelagsskap þessum til foráttu, þá hefir hann þó mörgu góðu til leiðar komið. Og dæmið, sem jeg ætlaði að nefna, er þetta:

Gamall bóndi bjó á sandjörð, sem lá undir uppblæstri. Sandurinn var kominn heim að túninu, og ekkert sýnilegra en að túnið legðist í auðn. þessi bóndi gat ekkert gert. Hann skorti fje til þess að verja túnið, eða kann ske að hann skildi ekki fyllilega, hvað gera þurfti. Þá tók sig til U. M. F. sveitarinnar og hlóð grjótgarð ágangsmegin við túnið, og bjargaði með þeirri framtakssemi túninu og fyrirbygði með því frekari skemdir. Jeg skal taka það fram að þetta var ekki í mínu hjeraði, en hjer voru það ungu mennirnir, sem riðu á vaðið; þeir sáu betur og rjettara heldur en gömlu mennirnir og ljetu ekki þar við staðar numið. Þeir fylgdu hugsjóninni fram til sigurs.

Það er sagt um unga menn, að hjá þeim gildi meira kapp en forsjá. Jú, þetta getur verið, en kappið getur líka mörgu góðu til leiðar komið, þegar því er beitt til stuðnings góðu máli. Og ekki dæmi jeg unga menn fyrir það, þó að þeir sjeu djarfir og áræðnir.

Það getur líka hent fullorðna menn að kunna ekki fótum sínum forráð og vera skammsýnir í „spekúlationum“ sínum. Við þurfum ekki annað en hugsa til togaraútgerðarinnar hjer í bæ og hvernig hún er komin; skipin falla úr 600 þús. kr. niður í 350 þús. eða jafnvel minna, og ekkert sýnna en að sum útgerðarfjelögin verði að leggja árar í bát. Að þessum fjelagsskap hafa þó eldri mennirnir starfað, svo þá getur hent glappaskotin eins og þá, sem yngri eru. Þess skal getið, að jeg áfelli ekki þessa menn, því aðalorsök þessa óhapps þeirra, er það, að tímarnir hafa breyst.

Það, sem jeg ætla að vegi fyllilega upp á móti vanhugsun yngri mannanna, er hnignun þeirra eldri að átta sig á þeim hlutum, sem framsókninni fylgja og því, sem fram undan er.

Jeg drap á það um daginn, að jafnsanngjarnt væri að taka atkvæðisrjett af mönnum, þegar þeir hefðu náð ákveðnum aldri og væru orðnir lítt starfhæfir í þjóðfjelaginu og áhugalausir um velferðarmál þjóðarinnar, eins og að svifta þessa menn, sem hjer ræðir um, atkvæðisrjetti. Jeg segi, að þetta gæti komið til mála, en það er ekki þar með sagt, að svo ætti að vera.

Þessar eru nú ástæðurnar frá sjónarmiði frjálslynds manns. En frá sjónarmiði íhaldsmannsins finst mjer, að lögráðaaldurinn hljóti að ráða. Og þar er aldurstakmarkið 21 ár.

Og þar sem svo er litið á, að 21 árs maður sje það þroskaður orðinn, að löggjafarvaldið trúir honum fyrir fje sínu, hlýtur einnig að mega treysta honum að fara með atkv. sitt í opinberum málum.

Við lifum nú og störfum á erfiðum tímum, svo engir kraftar mega ónotaðir liggja, sem til bjargar gætu orðið þjóðinni. Þess vegna er nauðsynlegt, að samvinna takist á milli eldri og yngri manna, þann veg, að þeir standi jafnt að vígi, þegar um úrlausn áhugamálanna er að ræða. Af þessum ástæðum er hún fram komin, brtt. á þskj. 319; og vænti jeg, að hv. deild samþ. hana