16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2801)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi leyft mjer að flytja brtt., sem er að finna á þskj. 253. Þessar breytingar þykja nú kann ske ekki mikilsverðar. Jeg hefi aðallega tínt upp þau lög og þær greinar þeirra, sem mjer skilst að falli úr gildi með hinum nýju lögum.

Er þá fyrst að telja lög nr. 49, 30. júlí 1909, eins og nánara er tekið fram í brtt. Allar hinar breytingarnar snerta lög þau, sem út hafa verið gefin um bæjarstjórnir í landinu á ýmsum árum, svo sem um bæjarstjórn Reykjavíkur, Akureyrar, Ísafjarðar, Hafnarfjarðar, Seyðisfjarðar, Vestmannaeyja og Siglufjarðar.

Hjer er ekki um neinar efnisbreytingar að ræða, en mjer fanst rjett að telja upp í einu þau lagaákvæði, sem falla úr gildi með þessum nýju lögum, svo menn gætu betur glöggvað sig á því. Jeg býst varla við, að brtt. þessi mæti nokkurri mótspyrnu; hún er svo meinlaus; svo að þess vegna ætti ekki að þurfa langt mál að fylgja henni úr garði.