16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (2803)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Jón Baldvinsson:

Jeg hafði tekið eftir þessu, en gerði það með fullum vilja að lofa því að standa, enda eru brtt. mínar engar efnisbreytingar við frv. Veit ekki, hvort alt er upp talið, en held þó, að alt sje tekið, sem nokkru máli skiftir, enda hafði jeg aðallega fyrir augum ákvæði þau, sem farið hefir verið eftir nú á síðari árum, og þá einkum það, sem snertir kaupstaðina.

Jeg álít ekki rjett að leysa konur undan þeim skyldum, sem þær hafa á sig tekið með auknum rjettindum, og tel enga ástæðu til þess að veita þeim heimild til að skorast undan því að taka sæti í hreppsnefnd eða bæjarstjórn, enda getur það stundum komið sjer illa, ef konur þær, sem vel er treyst og hafa nægan tíma frá heimilisstörfunum, geta skorast undan því.