09.05.1921
Efri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (2814)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Jeg ætla aðeins að taka það fram, að það, sem fyrir okkur vakti, var það, að við vildum ekki, að kosningarrjetturinn væri takmarkaðri í sveitarmálum en landsmálum. En hvað því viðvíkur, sem hv. 1. þm. Húnv. (G. Ó.) sagði, þá hafði nefndin athugað það áður og hugsað sjer að láta frv. ekki velta á því. En því miður hefi jeg ekki þau gögn við höndina, að jeg geti svarað því nú til hlítar, og ætla því, að rjettast sje að taka málið út af dagskrá að sinni.

Að því er snertir þessi mörgu lög, sem hv. 1. þm. Húnv. (G. Ó.) kvað falla úr gildi við þetta, þá skal jeg geta þess, að þetta eru aðeins einstakar greinar úr sveitar- og bæjarstjórnarlögum, og er það því einfalt mál og ætti ekki að valda neinni fyrirstöðu.

Hvað það snertir, að þeginn sveitarstyrkur skuli valda missi kosningarrjettar, þá skal jeg geta þess, að mjer finst það stundum, þ. e. í sumum tilfellum, sanngjarnt, en í öðrum ekki. Jeg gæti því fallist á rýmkun í því efni, en ekki á hitt, að öllum sveitarlimum sje skilyrðislaust veittur kosningarrjettur. — Jeg er alls ekki sömu skoðunar og hv. 2. landsk. þm. (S. E.) í þessu efni og efast stórlega um það, að þessi víðtæki kosningarrjettur, sem nú er á kominn, hafi orðið til bóta yfirleitt. Mín reynsla er sú, að þeir sjeu einatt örlátastir á fje úr sveitarsjóði, sem minst hafa til hans lagt, enda hefir það löngum þótt fýsilegt að rista þveng af annara skinni.

Eins og menn vita, þá eru aðalviðfangsefni sveitar- og bæjarstjórna fjármálin, og þykir mjer því sanngjarnast að sjá svo um, ef hægt væri, að þeir sjeu ekki alveg ofurliði bornir, sem þyngsta bera baggana.