09.05.1921
Efri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (2820)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skal ekki lengja umr. mikið. Hjer er aðallega rætt um það, hvort þeir, sem hafa fengið sveitarstyrk, eigi að hafa kosningarrjett eða ekki. En eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, er hjer um miklu meiri breytingu að ræða. Jeg álít, að með þeirri breytingu fari fram sú röskun á öðrum lögum og ákvæðum, að það borgi sig ekki að gera hana, enda álít jeg ekki þennan kosningarrjett til bæjar- og sveitarstjórna svo mikils virði, að hægt sje að tala um þunga refsing, sem lögð sje á þá, sem eru sviftir honum. Það er beinlínis rangt hjá háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), að hjer sje verið að svifta menn rjetti, því þessir menn hafa aldrei haft þennan rjett. Virðast mjer horfurnar í þessum efnum nú helst vera þannig og breytingagirni manna og frjálslyndi á svo háu stigi, að mjer kæmi ekki á óvart, ef frv. verður samþ., að komið yrði fram með á næsta þingi till. um, að enginn skyldi mega sitja í bæjarstjórn eða sveitarstjórn, nema sá, sem þegið hefir sveitarstyrk. Og þótt jeg viðurkenni fúslega, að ýmsir, sem þiggja sveitarstyrk, sjeu engu lakari menn en hinir, sem þess þurfa ekki, finst mjer ekki eiga við að tala um þessa styrkþega sem nýtustu sonu þjóðarinnar, er standi þeim, sem sjeð geta um sig og sína, miklu framar, en það virðist háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) hafa lagt mikla áherslu á.