11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2830)

126. mál, laun embættismanna

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg kann ekki við annað en láta frv. fylgja nokkur orð, þó þess sje ekki mikil þörf, því að allar greinarnar hafa verið ræddar meira og minna í sambandi við fjárlögin og ýmislegt annað.

Um 1. gr. er það að segja, að fjvn. þótti rjettara að setja þetta ákvæði, um laun bæjarfógetans á Siglufirði, beint inn í launalögin, þó það hafi verið samþykt í öðrum lögum. En jafnframt fellur þá niður 4. málsgr., því að lögreglustjóri á Siglufirði er ekki lengur til sem sjálfstætt embætti.

Um 2. og 4. gr. Fjvn. þykir rjett, að dyraverðirnir við pósthúsið og Alþingishúsið sjeu á launalögunum, eins og dyraverðir við önnur samskonar opinberar byggingar, svo sem safnahúsið og mentaskólann.

Um 3. gr. hefir hæstv. atvrh. (P. J.) talað nægilega.

5. gr. er aðeins lagarjetting, til þess að koma þessum tveim kennurum á rjettan stað.

Um 6. gr. var nægilega talað í umræðunum um fjáraukalögin, þegar talað var um kennaraskólann.

Viðvíkjandi 7. gr. vil jeg beina máli mínu til hæstv. fjrh. (M. G.). Í síðustu línu gr. er sagt, að kennararnir fái ekki þessar launabætur fyr en þeir verða skipaðir fastir kennarar, en í 1. málsgr. segir, að launabæturnar gildi frá 1. jan. 1921. Þegar nefndin setti þessa grein, átti hún við 2 kennara, sem ráðnir voru með samningi á síðastliðnu hausti, en hún hjelt, að hinir kennararnir við skólann væru skipaðir fastir kennarar. Nú hefir nefndin fengið þær upplýsingar, að einn elsti kennarinn, sem helst ætti að bæta við, Sigurbjörn Á. Gíslason, er ekki skipaður fastur kennari enn þá og segist ekki kæra sig um að vera skipaður, ef hann fær launabæturnar samt.

Nú vil jeg spyrja hæstv. fjrh. (M. G.), hvort hann álítur sig hafa heimild til þess að greiða honum launabætur eftir gr., eða vill heldur fá sjerstaka brtt. til þess.

Jeg vona svo, að frv. verði vísað til 3. umr. og síðan afgreitt til háttv. Ed og að hún fari ekki eins með það og samskonar frv. frá stjórninni, sem hún hefir stungið undir stól.