12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2856)

113. mál, sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu megi fela öðrum sérstök störf

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get fallist á það með hv. þm. Barð. (H. K.), að þetta frv. er ekki beinlínis nauðsyn. En jeg get ekki fallist á þau ummæli, að frv. sje fram komið vegna mögulegra forfalla núverandi sýslumanns í Skaftafellssýslu. Eins og flm. (Þorl. J.) bar það fram, var það alment um forföll sýslumanna, en jeg gat þess jafnframt, að það stæði sjerstaklega á í Skaftafellssýslu. Jeg veit, að sýslumenn eiga víðar erfitt uppdráttar með þingaferðir og önnur ferðalög; t. d. er mjög örðug leið fyrir sýslumanninn í Barðastrandarsýslu að komast í austurhreppa sýslunnar. Sama má segja um Norður-Ísafjarðarsýslu. Þá er talsverður munur á örðugleikunum í Skaftafellssýslu og hinum sýslunum. því vegna stórvatnanna er stundum ómögulegt að komast leiðar sinnar milli Vestur- og Austur-Skaftafellssýslna. Jeg man t. d. eftir því, að sýslumaður Skaftfellinga hefir orðið að koma hingað til Reykjavíkur, til þess að komast hjeðan til þingaferða í austursýslunni.

Þó að jeg því ekki geti sagt, að það sje nein nauðsyn, þá sje jeg ekki, að það geti verið neitt skaðlegt að veita heimild í þessu sjerstaka tilfelli.