12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (2860)

113. mál, sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu megi fela öðrum sérstök störf

Þorleifur Jónsson:

þetta er ekkert stórmál, sem ástæða er til að deila um hjer á hinu háa Alþingi. Jeg vil aðeins mótmæla því, að þetta frv. sje einkanlega fram komið vegna sjúkleika núverandi sýslumanns í Skaftafellssýslu. Það er sem sje ekkert einsdæmi með hann, að sýslumaður í Skaftafellssýslu hafi orðið neyddur til að fá leyfi til að fela hreppstjóra eða umboðsmanni að framkvæma fyrir sig ýms störf, svo sem þingaferðir eða uppboð. Það kom fyrir oftar en einu sinni í tíð fyrri sýslu manna, bæði Guðlaugs, Sigurðar og Sigurjóns, og var vitanlega engin fyrirstaða á því að fá leyfið hjá stjórnarráðinu. En þau tilfelli geta komið fyrir, að heppilegra sje fyrir sýslumenn að geta upp á eindæmi falið hreppstjóra eða umboðsmanni að halda uppboð eða annað þvílíkt.

Jeg er sammála hæstv. forsrh. (J. M.) um það, að ekki sje viðeigandi að samþ. svona dagskrá, því að stjórnin þarf engra áskorana við. Hvað sem annars verður gert við málið, þá vona jeg, að dagskráin verði feld.