09.05.1921
Efri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

82. mál, atvinna við vélgæslu á íslenskum mótorskipum

Fram. (Karl Einarsson):

Jeg get nú ekki sjeð, að eins mikið sje að athuga við þetta frv., eins og hv. 4. landsk. þm. (G. G.) lýsti. Mjer hefir þó frá upphafi þótt það ókostur á frv., að 2. gr. nær ekki yfir stærri báta en þá, sem hafa 10 hestafla vjel. Jeg væri ánægður með, að 2. og 3. gr. væri slengt saman, og ein og sama regla gilti um alla þá báta, sem þar um ræðir. Það eru þær bátastærðir, sem mest eru notaðar, því að það er vitanlegt, að síðan Fiskifjelagið tók að halda mótorfræðanámsskeið, geta margir tekið þátt í þeim, og fengið umgetin vottorð. Og ekki tel jeg neinn vafa á því, að þessi 12 ára vjelamaður, sem hv. 4. landsk. þm. (G. G.) talaði um, hefði getað fengið slíkt vottorð. En meðan hinn væntanlegi mótorvjelstjóraskóli, sem stofnaður var með lögum í fyrra, tekur ekki til starfa, þá er nauðsynlegt, að þessi námsskeið sjeu haldin víða á helstu veiðistöðvum landsins.

Það kom fram nokkur misskilningur hjá hv. 4. landsk. þm. (G. G.), um undirbúning frv. Það er samið af Fiskifjelagi Íslands, með aðstoð kennarans við mótorvjelfræðinámsskeiðin, sem fjelagið hefir haldið. Síðan kom frv. til okkar í sjútvn. og bar Nd.-nefndin það fram. En frá upphafi þótti mjer þetta galli á frv., sem jeg gat um. Og eftir að aðrir hafa líka fundið sitthvað að frv., þá vildi jeg leyfa mjer að óska þess, að málið sje tekið út af dagskrá. Mætti þá reyna að laga það, því að jeg er ekki alveg viss um, hvort jeg get greitt frv. atkv. óbreyttu út úr deildinni.