11.05.1921
Efri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2884)

82. mál, atvinna við vélgæslu á íslenskum mótorskipum

Frsm. (Karl Einarsson):

Jeg gat þess síðast, er þetta mál var hjer til umr., út af orðum hv. 4. landsk. þm. G. G., að mjer væri um og ó að mæla með að frv. gengi fram, og bað því um, að það yrði tekið af dagskrá.

Síðan hefi jeg orðið þess fullviss, að eigi er rjett, að láta frv. ganga fram óbreytt, því enn þá er engin föst regla um mótornámsskeið Fiskifjelagsins, og því engin trygging fyrir því, að nú þegar sje nóg til af vjelstjórum, er gengið hafa á þessi námsskeið. Brtt. nefndarinnar, á þskj. 555, lúta að því, að lögin komi ekki til framkvæmda, fyr en mótorvjelstjóraskólinn í Reykjavík er tekinn til starfa og reglubundin námsskeið verða haldin í kauptúnunum, og sömuleiðis að taka skýrt fram, hvað átt er við með yfirvjelstjóri í 2. málsgr. 5. gr. — Annars vil jeg taka það fram, viðvíkjandi ræðu hv. 4. landsk. þm. (G. G.), að ekki er meiningin, að útiloka þá menn frá að annast vjelgæslu á mótorbátum, er það hafa gert áður, eða geta, í viðlögum, heldur er aðeins átt við þá, er atvinnu hafa við vjelgæslu á mótorskipum.