22.02.1921
Efri deild: 6. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (2894)

29. mál, einkasala á kornvörum

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Ástæðurnar til þess, að stjórnin kemur fram með frv. þetta, eru tilfærðar í greinargerðinni. Er þar skýrt frá þeim allítarlega, og býst jeg ekki við að bæta miklu við í þessari umr. Jeg get tekið það fram, að með þessu og öðrum slíkum einkasölufrumvörpum, er stjórinn flytur, er hún ekki að marka nýja stefnu í þá átt, að verslun landsins þokist smátt og smátt í hendur ríkisins. þessi frv. hafa hvert sinn tilgang, sem að áliti stjórnarinnar, næst einungis með ríkisverslun á þessum vörum, og lítur hún svo á, að þessi verslun sje framkvæmanleg fyrir ríkið.

Jeg hefi víða orðið var við þær mótbárur, að frv. væri borið fram á óheppilegum tíma. Jeg neita því ekki, að á þessum hverfulu tímum er bæði óhægt og óheppilegt að kaupa kornvöruforða nema af skornum skamti, en þess er að gæta, að hjer er aðeins um heimild að ræða fyrir stjórnina, og hún sætir þá hinum bestu tækifærum og velur hinn heppilegasta tíma. En það, sem aðallega knúði stjórnina til að flytja þetta mál nú, var það, að hún áleit nauðsynlegt, að málið væri komið á dagskrá, áður en landsverslunin, sem nú er, yrði lögð niður, og hægt væri að taka tillit til þess áður en landsversluninni og tækjum hennar yrði sundrað. Þessa skýringu gef jeg fyrir stjórnarinnar hönd.

Enginn hygg jeg heldur þurfi að lá mjer það, þótt jeg, sem ekki býst við ellidauða í mínu núverandi sæti, vildi hreyfa þessu máli, sem jeg hefi haft í huga í meira en 20 ár, á meðan jeg sæti í því, úr því svo vel vildi til, að hinir ráðherrarnir voru mjer sammála, og úr því sama hugmyndin var fyrir þó nokkru síðan komin fram fyrir þjóðina frá einum merkasta áhugamanni þessa lands. Var það mikil uppörfun fyrir mig, sjerstaklega þar eð sú hugmynd var ekki komin frá mjer, og virðist það nokkur sönnun fyrir tilverurjetti þessa máls, að tveim eða fleiri — máske mörgum — hugkvæmist sama úrræðið, án þess þó að einn hafi áhrif á annan.

Því hefir verið hreyft nú, að aðrir vegir væru til en þeir, sem í frv. liggja, að fá forða fyrir búpening, og hafi þeir það fram yfir ríkisverslun á korni, að þeir skerði ekki frjálsa verslun, en nái þó sama augnamiði. Þar er þá helst til að dreifa kornforðabúrum eða kornforðasamningum við kaupfjelög og kaupmenn, sem þá útvega fjelagsmönnum sínum forða. En það vill nú svo vel til, að jeg hefi eigin reynslu í því og þekki bæði kornforðabúr og hinar aðferðirnar líka.

Í minni sveit var stofnað 1883–84 forðabúr af gjafakorni. þetta kornforðabúr varð aldrei stórt, en var þó óneitanlega töluvert mikil stoð í því. Í raun og veru starfaði það ekki lengur en fram að stríðinu, þótt það sje til á pappírnum enn.

Þessum kornforðabúrum þarf að stjórna með járnhendi og mikilli árvekni, og hefir það gengið stopult. Fyrst og fremst er að hafa kornforðann vissulega til, þegar á þarf að halda. Kornforðabúr, er stofnuð hafa verið annarsstaðar, hafa, að minsta kosti þau, sem jeg veit um, flest lognast út af eftir nokkurn tíma. Þetta forðabúr stóð þó og starfaði í ein 30–40 ár, gerði nokkurt gagn, en var máttlítið í verulegum fóðurskorti. Enn fremur geri jeg ekki ráð fyrir, að sveitarfjelög hafi yfirleitt fje til þess að stofna slík kornforðabúr. Jeg er einnig hræddur um, að alment komist ekki framkvæmd á um samninga við kaupm. og kaupfjelög, og það hafa ekki orðið veruleg not að slíku enn þá, sem jeg þekki til. Um 3. atriðið, að kaupfjelög sjái mönnum fyrir forða, hefir að vísu nokkra þýðingu, eins og bent er til í aths., en í of smáum stíl. Og mín reynsla er það, að með járnhendi þarf að halda um stjórnarvölinn í því fjelagi, sem slíkt tekur fyrir, og sú stjórnsemi er ekki nógu almenn í fjelögum. Jeg hefi því ekki trú á því, að þetta blessist fyr en ríkið tekur að sjer málefnið. Þannig hefi jeg, þrátt fyrir glaðar vonir í fyrstu, eftir allmikla kynningu og reynslu, mist trúna á þessar smærri tilraunir sem nokkra allsherjartryggingu. En hitt er annað mál, að þar, sem eitthvað af þessu þrifst vel, er það gott með, til fulltingis og útfærslu allsherjarforða ríkisins. Hjer ræðir um þrautaforða, þ. e. forða, sem grípa má til í aftakaharðindum, eða ef eitthvað það kemur fyrir, sem tálmar aðflutningi vörunnar til landsins.

Jeg hefi heyrt þann andblástur, að frv. væri forboði einokunar í landinu. Jeg ætla ekki að tefja fyrir hinni hv. deild með því, að fara að tala um einokun og frjálsa samkepni, að minsta kosti ekki við þessa umr. Einungis skal jeg með nokkrum orðum lýsa afstöðu minni til landsverslunar eða ríkisverslunar yfir höfuð. Jeg var enginn sjerlegur hvatamaður að landsversluninni í fyrstu, og dróg jafnvel heldur úr 1914–15; jeg minnist þess, að jeg lenti í dálítilli þrætu við þáverandi ráðherra; jeg var þar að ýmsu leyti kunnugri en margir þingmenn, og sá því ýmsa agnúa á málinu öðrum fremur. Tilhögun ríkisverslunar hefi jeg hugleitt fyrir löngu í sambandi við, og með samanburði við kaupfjelagsskapinn. Þar er sú verslunaraðferð, sem jeg hefi haldið fram og lifað fyrir, og hefir bæði sín siðbætandi og fjárhagslega auðgandi áhrif fyrir almenning og alment viðskiftalíf. Og mín skoðun hefir verið, að þessara umbóta þyrfti við, áður en ríkið tæki við verslun yfirleitt. En áður en slíkar róttækar umbætur eru komnar á í þjóðlífi voru, býst jeg við, að líði ekki einungis áratugir, heldur aldir. En þessa verslun, sem hjer ræðir um, tel jeg hiklaust ríkisvaldið þegar fært um að annast, alveg eins og póstkerfið, símakerfið o. fl., sem sjálfsagt þykir, að ríkið annist, því þetta eru ekki meiri vandamál en þau.