17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2897)

29. mál, einkasala á kornvörum

Sigurður Eggerz:

Þetta mál kom, að því er mig minnir, fyrst fram árið 1913 hjer í hv. deild. Þá var hugmynd þeirri, sem kemur svo greinilega fram í þessu frv., hreyft af hæstv. forseta, 6. landsk. þm. (G. B.). Jeg man, að jeg mælti þá sterklega á móti þessari stefnu, og þau rök, sem jeg hafði þá fram að færa, get jeg í dag flutt af jafnmikilli sannfæringu, á þessum þingfundi.

Jeg skal játa, að það er að bera í bakkafullan lækinn, að jeg fari nú einnig að deila hjer á stjórnina og álasa frv. þessu, því þetta hefir þegar verið gert allrækilega, af þeim hv. þm., sem þegar hafa tekið til máls. En með því að hjer er að ræða um mikilvægt stefnumál, þá vil jeg þó með nokkrum orðum gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli.

Jeg verð að segja það, að jeg furða mig á því að sjá ekki alla hæstv. stjórn hjer á þessum fundi, þar sem slíkt stefnumál og þetta er á dagskrá. Því þar sem hjer er ekki að ræða um neinar ófriðarákvarðanir, heldur horft beint við framtíðinni, þá verður tæplega annað sjeð en að stjórnin, í frv. þessu, sje að marka stefnu sína í verslunarmálum. Það getur heldur engum blandast hugur um, að stjórnin sje öll sammála í þessu efni; má sjá það ljóslega á öðrum frv. hennar, sem eru af sama toga spunnin.

Jeg skal undir eins taka það fram, að jeg er algerlega andvígur þessu frv., eins og einokunarstefnunni yfirleitt, og það sama get jeg fullyrt fyrir hönd þess flokks, sem jeg skipa sæti í.

Eitt af því, sem hæstv. stjórn telur mæla mjög með frv., er það, að gefið sje, að betri innkaup fáist, er öll kornvöruverslun sje þannig á einni hendi. Jeg skal ekki neita því, að reglan sje sú, að hægt er að ná betri kjörum á vöru, þegar keypt er inn í stórum stíl. En þó er á það að líta, að þegar innkaup þessi eru öll á hendi eins manns, þá veltur alt á því, hve hæfur hann er til starfans. Embættismaður þessi skal, samkv. frv., vera skipaður af stjórninni. Ef nú svo illa tækist til, sem ekki er óhugsandi, að val þetta færi að einhverju leyti í handaskolum hjá henni, þá er helst til mikið í húfi. Jeg fyrir mitt leyti er hræddur við að leggja svo mikið vald í eins eða fárra manna hendur. Þar sem um slíkar lífsnauðsynjar er að ræða, gæti auðveldlega orðið veruleg hætta á ferðum, ef mistök yrðu, og er jeg algerlega mótfallinn að tefla í nokkru á tvær hættur í þeim efnum.

Það er alment viðurkent, að einvaldsstjórn myndi vera hin besta og heillavænlegasta hverju ríki, ef einvaldurinn væri bæði góður maður og vitur og hefði yfirburðaþekkingu til að bera á starfa sínum. En þó nú í einhverju ríki væri völ á slíkum manni, þá myndu trauðla margir fúsir til þess að koma á slíku stjórnarfyrirkomulagi og leggja alt vald í hendur einum manni, bara af ótta við þá, sem eftir hann kæmu til að sitja á veldisstólnum.

Þannig er og farið um slíkar framkvæmdir, sem hjer er um að ræða. Þótt hæstv. stjórn hitti á hæfan mann í fyrstu, þá gæti hún, eða einhver önnur stjórn síðar, veitt starfann manni, sem ekki væri stöðunni vaxinn. Það liggur í augum uppi, að sökum allrar afstöðu yrði sá sess mjög vandskipaður, og ef svo færi t. d., að erlent auðvald næði tökum á þeim manni, þá hygg jeg, að þing og þjóð myndi komast að raun um, að það væri ver farið en heima setið.

Þá skal jeg enn vekja athygli á því, hvort ekki geti verið mjög varhugavert yfirleitt að flytja slík umsvifamikil ábyrgðarstörf sem þetta yfir á fárra manna hendur, sjeð jafnt frá siðferðilegu sem hagfræðilegu sjónarmiði. Það sljóvgar ábyrgðartilfinningu fjöldans, þegar stjórnin, eða fáir menn, verða nokkurskonar „forsjón“ hans í slíkum efnum. Það gerir menn kæruminni um, hvernig þessum framkvæmdum reiðir af, og, ef óhöpp vilja til, þollitla og ósanngjarna gagnvart framkvæmdavaldinu.

Hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) lagði mikla áherslu á, að með þessu móti yrði landbúnaðurinn best trygður og því aftrað, að fje bænda hríðfjelli í hörðum vorum. Nú mun það öllum kunnugt, sem nokkuð þekkja til landbúnaðar, að það er einmitt mjög umdeilt mál og vandasamt að skera úr, með hverjum hætti fjenaður hjer á landi yrði best varinn gegn falli. Óttast jeg, að það gæti orðið til þess að gera bændur vogaðri með ásetning, ef þeir ættu jafnan, ef illa færi, von á hauk í horni, þar sem væru kornbirgðir landsverslunarinnar. — Ætla jeg, að öruggasta bjargráðið verði hjer, sem oftar, að reyna að auka þroska almennings og glæða skilning bænda á því, hve mikil ábyrgð hvíli á þeim og hvílíkan voða þeir geti teflt landinu í með vondum ásetningi. Auk þess sje jeg ekki, hvers vegna ekki ætti að vera hægt að tryggja landbúnaðinn að þessu leyti, þó að verslunin væri frjáls.

Jeg hygg, að enn þá sje ekki fundin betri leið í verslunarviðskiftum en hin frjálsa samkepni, og allra síst hefir einokunarfarganið reynst Íslendingum nein heillaþúfa um að þreifa. Það eru að vísu margir nú, sem bera kviðboga fyrir því, að það sje farið að bóla á þeirri óheillavænlegu stefnu hjá kaupmönnum vorum, að þeir myndi hringi og haldi vörunni þannig í óeðlilega háu verði. En jeg ætla, að ekki þurfi að óttast, að sú stefna nái yfirhönd hjer á landi. Því eins og mönnum er kunnugt, þá er að rísa upp öflug hreyfing víðs vegar um land, sem ætti að vera nægileg hamla gegn ásælni kaupmanna. Þessi hreyfing er samvinnufjelagshreyfingin, með kaupfjelögin í broddi fylkingar. Jeg hygg, að það muni með tímanum verða slík samkepni milli þessara tveggja stefna, að síst sje ástæða til að bera neinn kvíðboga út af þessu.

Jeg vil annars ekki þreyta hv. deild með því að fara lengra inn á þetta efni nú að svo stöddu. Virðist mjer því síður ástæða til þessa, sem þeir hv. þm , er þegar hafa tekið til máls, hafa orðið sammála í því að áfellast stjórnina út af þessu tiltæki hennar. Og jeg verð að taka í sama strenginn og þeir og játa, að jeg er meira en lítið forviða á því, að stjórnin skyldi hafa einurð til þess að koma fram með annað eins frv. og þetta, á þessum tímum, þegar fjárhagsörðugleikarnir eru eins miklir og nú á sjer stað.

Eins og kunnugt er, kom síðasta stjórn lánum ríkissjóðs í allgott horf. Síðasta innanlandslánið, er hún tók, nam 3 miljónum, og var það aðallega ætlað til verklegra framkvæmda, en í annað mun það hafa farið, og ekki eftir af því meira en 900 þús. kr. Auk þess skildist mjer, að búið væri að endurgreiða landssjóði svo mikið af fje landsverslunarinnar, að eftir stæðu ca. 3 milj. kr. Það er því auðsjeð, að enda þótt tekjur ríkisins megi telja allgóðar síðasta ár, þá er fjárhagurinn mjög örðugur, og er því því furðulegra, að stjórnin skuli láta sjer detta í hug að bera fram slíkt frv. nú. Því til þessarar einokunarstarfsemi þarf mikið fje. Þar að auki var stjórnin ekki ólm í að taka lán, og álít jeg fulla ástæðu til að liggja henni á hálsi fyrir að taka ekki lán, til þess að bjarga við atvinnuvegunum. Eins og allir vita, liggur mikil hrúga af frv. frá stjórninni fyrir þessu þingi; þó er það aðallega eitt mál, sem allir hugsa nú um, og það mál er viðskiftakreppan. Er óhætt að segja, að ekkert mál sje neitt í samanburði við það. Jeg hefi aldrei komið á þing, þar sem eins miklir örðugleikar hafa verið fyrir dyrum og nú. Ef þingi og stjórn tekst að greiða úr flækju þessari, þá verður mikið hægt að fyrirgefa. Annars fer jeg ekki frekar út í þetta mál að sinni, en lýsi mig andvígan stefnu þessari og álít þinginu skylt að kveða hana niður.