17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2899)

29. mál, einkasala á kornvörum

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi ekki ástæðu til að tala langt mál, og get vísað til þess, sem jeg sagði áðan.

Að því er einkasölu á steinolíu snertir, sem hæstv. atvrh. (P. J.) mintist á, þá er þar öðru máli að gegna, þótt landið taki einkasölu á henni, þar sem steinolían er og hefir verið einokuð. Það er og heldur ekki sambærilegt að benda á verslun þá, sem landið hefir haft á styrjaldarárunum, þessu frv. til stuðnings, því eins og kunnugt er, voru það útflutningshöft í hinum ýmsu löndum, og þar af leiðandi ótti við skort á nauðsynjavörum í landinu, sem gerði það nauðsynlegt, að stjórnin annaðist um innkaup á neysluvörum til landsins. Það voru neyðarástæður, sem ekki má taka til greina, þegar rætt er um verslun landsins á venjulegum tímum.

Hæstv. atvrh. (P. J.) talaði eins og hann byggist ekki við, að þetta mál ætti að koma til framkvæmda strax, en hví er þá komið með þetta frv. nú? Það er annars leitt, að hæstv. stjórn skuli ekki öll vera viðstödd, þegar rætt er um þetta mál, svo hægt væri að krefja hana sagna um afstöðu hennar í þessum málum yfirleitt, því þótt hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) standi hjer einn fyrir svörum, þá er það vitanlegt, að þetta er frv. allrar stjórnarinnar. Jeg skil það svo, að stjórnin sje með þessu frv. að marka stefnu sína í verslunarmálunum. Þess vegna þótti mjer rjett að lýsa skoðun minni á málinu.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að ef valið á forstöðumanni þessa fyrirtækis mishepnaðist, gæti stjórnin ávalt tekið í taumana og vikið honum frá. Þetta kann að vera satt. En við getum líka fengið ónýta stjórn, sem ekki gætir skyldu sinnar.

Ef verslunin er frjáls, þá fær hver meðlimur þjóðfjelagsins að reyna krafta sína, og þeir, sem duglegastir eru í því að útvega sambönd og vörur, þeir hljóta ávalt að selja vöruna ódýrara en aðrir, og við þetta myndast samkepni, sem heldur vöruverði niðri.

Auk þess skoða jeg það sem afarhættulegt að leggja svona mikið vald í hendur einum manni. Þótt svo færi, að vel tækist valið á manninum einu sinni, þá gætum við haft vonda stjórn, sem veldi virkilega af verri endanum, er mannaskifti yrðu.

Flestir eru víst ásáttir um það, að einveldi sje best, ef trygging væri fyrir því, að ágætismaður sæti altaf við stýrið. Það myndi reynast best, að völdin væru í höndum virkilega góðs manns. En þótt svo væri, að einn slíkur maður væri uppi einhvern tíma, þá taka menn ekki í mál að taka upp einveldi, af ótta fyrir manninum, sem á eftir kynni að koma. Auk þess fer þjóðin á mis við nauðsynlega þroskun, ef hún er svift rjettindum sínum til þess að stunda atvinnuvegi sína.

Það var mikil áhersla lögð á það af hæstv. atvrh. (P. J.), að ekki mætti nefna frv. þetta einokunarfrv., heldur einkasölu. En jeg held, að rjett sje að nefna þetta einokun. Það er orð, sem komið er inn í málið og á við samskonar verslunaraðferð og hjer er gert ráð fyrir. Þetta orð hefir sína sögu, og þjóðin veit, við hvað átt er. Og ef þessi einokunardraugur verður vakinn upp fyrir alvöru, þá eru til þeir kraftar í landinu, sem vonandi duga til þess að kveða hann niður. En því fyr sem það er gert, því betra.