17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

29. mál, einkasala á kornvörum

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Það er út af því, sem hv. 2. landsk. þm. (S. E.) sagði, að jeg tek nú til máls.

Hann var að tala um stefnu stjórnarinnar. Hann vildi vekja athygli á því, að frv. þetta ætti að marka alveg sjerstaka, nýja stefnu hennar í verslunarmálunum. Jeg vonast þó eftir, að hann hafi tekið eftir því, sem jeg sagði og tók skýrt fram í fyrri ræðu minni, að stjórnin væri ekki með þessu frv. að marka neina nýja stefnu í verslunarmálunum yfirleitt, og jeg skýrði nánar frá minni eigin afstöðu til þess máls. Og þegar jeg segi eitthvað svo ljóst og afdráttarlaust, þá ætlast jeg til þess, að það sje tekið í fullri alvöru og einlægni.

Jeg sagðist ekki vera á því, að ríkið ætti að taka að sjer verslun alment, a. m. k. ekki nema með undanfarandi breytingum á viðskiftalífi og stjórnarfyrirkomulagi, sem kosta langan tíma, jafnvel aldir. Þetta er dálítið annað en það, sem hv. 2. landsk. þm. (S. E.) vill láta eigna stjórninni.

Jeg skal ekki fara út í deilur um verslunarmálin. Háttv. þm. vita allir, hverrar skoðunar jeg er í þeim málum. Jeg er og hefi verið fylgjandi samvinnufjelagsstefnunni og að kaupfjelög eigi smátt og smátt að koma í stað kaupmanna. Þetta er engum dulið. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið að sinni, en mun skýra skoðanir mínar fyrir nefnd þeirri, sem fær málið til meðferðar. Tel jeg rjett, að það verði háttv. landbúnaðarnefnd, því málið er landbúnaðarmál og lýtur, eftir eðli sínu, undir þá nefnd. Það er fyrst og fremst komið fram til þess að sporna við felli á búpeningi landsmanna.