17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2903)

29. mál, einkasala á kornvörum

Björn Kristjánsson:

Þetta mál er þannig vaxið, að ekki er hægt að skipa því þegjandi til nefndar. Jeg tek það fram, að það, sem jeg segi hjer, er ekki talað í neins flokks nafni. Jeg er utan flokka og mun verða það fyrst um sinn. Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. atvrh. komi ekki á óvart, þótt jeg tjái mig frv. þessu mótfallinn. Það er ekki einasta það, að kostnaðarhlið málsins er í mesta máta ískyggileg, heldur álit jeg grundvöll frv., einokunar- eða einkasölugrundvöllinn, öldungis óhafandi. — Þeir, sem best þekkja til viðskifta- og fjármála í heiminum, hallast að frjálsri samkepni. Það eru ekki eingöngu fjármálamennirnir svo nefndu, sem eru á þessari skoðun, heldur meiri hluti almennings.

Sama máli hygg jeg að sje að gegna um mikinn meiri hluta manna hjer á landi.

Á 4 fundum, sem við þm. G.-K. hjeldum þar í kjördæminu, þar af 2 mjög fjölmennum fundum, voru aðeins 3 atkv. með landsverslun, en hin öll á móti, sem samþyktu svo hljóðandi tillögu, sem jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp:

„Fundurinn álítur, að frjáls samkepni í verslun sje landinu hollust til frambúðar, og er því mótfallinn, að landsverslun sje rekin framvegis.“

Það er alt svo meining alls þorra manna í Gullbringu- og Kjósarsýslu, að landsverslunina beri að leggja niður, og öll ástæða er til að ætla, að allur þorri landsmanna sje á sömu skoðun.

Hæstv. atvrh. (P. J.) tók það fram, að tilgangur frv. væri sá, að tryggja landinu góðar og ódýrar vörur. Það er ekki nóg, að tilgangurinn sje góður. Það verður fyrst að hugleiða, hvort sá góði tilgangur næst með frv.

Við höfum dæmi fyrir okkur, þar sem landsverslunin er.

Í upphafi hennar fengum við ávalt góðar vörur frá versluninni; t. d. voru frönsku kolin og kolin frá Fleetwood góð. En svo var kolaútvegunin tekin af því góða firma þar, sem hafði annast hana, og lögð í hendur óreyndum unglingsmanni hjer, og síðan hefir ekki verið ástæða til að dást að góðu verði nje góðri vöru. Mikill hluti af kolabirgðum þeim, sem landið á nú, er ónýtur. Skipstjóri einn sagði mjer, að kolin væru óbrúkleg handa skipum. Hann kvaðst hafa tekið hjer kol, en orðið að fara inn í höfn til þess að fá betri kol, til þess að forða skipinu frá að reka í land, ef álandsvindur kæmi.

Á hverri vöku kvaðst hann vera vanur að ausa út 6 strokkum eða blikkkörfum af ösku af vanalegum skipakolum, en af þessum kolum varð að fleygja útbyrðis 45 strokkum af úrgangi eftir vökuna.

Þetta sýnir, að þótt tilgangurinn sje góður og stjórnin vi1ji tryggja góðar vörur, þá fer svona, er stjórn landsins hefir verslunarreksturinn með höndum.

Árið 1917 var hjer feitmetisskortur svo mikill, að fólk varð um langan tíma að borða þurt. Stjórnin tók sig þá til og keypti fleiri tugi tonna af margarini frá Vesturheimi. En hvernig reyndist svo þessi vara?

Þegar til kom og farið var að selja margarínið, reyndist það svo, að ekki var hægt að leggja sjer það til munns. Smjörlíkið reyndist því óseljandi. Veit jeg ekki, hvað af því varð. Geri ráð fyrir, að því hafi verið fleygt í sjóinn.

Í fyrra sumar seldi stjórnin 200 hesta til Englands. Hún átti að útvega skipi því, er hestana sótti, flutning hingað upp. Hún ljet skipið flytja kol til landsins. Stjórnin borgaði skipi þessu í flutningsgjald 95 shillings fyrir tonn, sem eftir þáverandi gengi nam 119 kr. fyrir tonnið. En á sama tíma voru alment borgaðar 80 kr. á tonnið hingað til lands, þótt skipin fengju engan flutning til útlanda aftur.

Jeg segi ekki, að stjórnin hafi verið að „draga landið upp“ með svona ráðstöfunum. En þegar hið opinbera á að hlutast til um svona mál, þá trassa menn að setja sig inn í málin, og til að stjórna eru þráfaldlega valdir menn, sem ekkert vit hafa á þessum málum. Vörurnar fást því ekki ódýrari með þessu fyrirkomulagi, eins og sjá má af þessu dæmi.

Þá er ein ástæðan sú, að birgja landið með matvöru, til þess að vera viðbúnir að mæta nýjum ófriði. En jeg held ekki, að ástæða sje til þess nú að afla matvöru til handa landinu, ef til nýrrar styrjaldar skyldi draga. Fyrst er og að hafa peninga, mynt, til þess að kaupa fyrir matvöru, ef stríð skyldi skella á. Fyrir því þyrfti fremur að hugsa.

Enn er ein ástæðan fyrir þessu frv. sú, að landsmenn eigi sjálfir að mala allan rúg og hveiti, sem til landsins flyst. Jeg er þar á sömu skoðun, því þá veit maður ávalt, hverskonar vöru maður leggur sjer til munns. En þetta má gera á alt annan hátt en þann, að veita stjórninni einkasölu á þessum vörutegundum.

Nú kaupa menn mikið rúgmjöl; það er ljettara fóður en rúgur, og þá líka einni krónu ódýrara. En til að koma því á, að menn fari aftur að mala, þá má leggja toll á malað mjöl, en aftur engan á ómalaðan rúg og hveiti. Þá munu menn brátt komast upp á að kaupa rúg og ómalað hveiti. Þetta er einföld leið, og þarf ekki mikið fyrir að hafa.

Aðalástæðan, sem hann færir fyrir frv., er sú, að sjá landsmönnum á þann hátt fyrir fóðri handa skepnunum. En þetta má gera á annan hátt. En hæstv. atvrh. (P. J.) sjer eigi önnur ráð til að tryggja búpeninginn. Hann taldi upp allar leiðimar, sem reynt hafði verið að fara, en áleit enga þeirra nothæfa. Með öðrum orðum, menn eru ekki viðbúnir að nota útlent fóður. Margir álíta, að landbúnaðurinn beri sig ekki, sje notað útlent fóður; því verði að takmarka skepnueignina við það fóðurmagn, sem hægt sje að afla í landinu sjálfu.

Hæstv. atvrh. (P. J.) álitur eina ráðið, að ríkið kosti fóðurbirgðirnar og leggi kaupmönnum og kaupfjelögum þá skyldu á herðar að halda fóðrinu svo og svo lengi óseldu. En slíkt er alveg ómögulegt, því að það ríður í bág við öll viðurkend viðskiftalögmál. — Fjárhagshliðina þarf ekki að ræða; ríkið er nú óviðbúið að takast á hendur verslunarrekstur, sem útheimtir margar miljónir króna í rekstrarfje.

Öll framkoma hæstv. atvrh. (P. J.) virðist benda á, að honum sje þetta ekki kappsmál, og jeg efast um, að hann áliti, að þetta sje landinu til góðs, því jeg þekki manninn svo, að hann hlýtur einnig að sjá einhverjar skuggahliðar á máli þessu. En sennilega hefir verið barið svo hart á dyrnar hjá honum, að hann hefir eigi sjeð sjer annað fært en ljúka upp.