11.03.1921
Efri deild: 20. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (2910)

29. mál, einkasala á kornvörum

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg var ekki viðstaddur, þegar hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) byrjaði að tala, og get því ekki borið um, hvað hann hefir sagt um málið.

Háttv. nefnd veitti mjer vitneskju um tillögu sína, áður en henni var útbýtt, og ljet jeg í ljós við nefndina, að jeg gæti felt mig við þessa úrlausn málsins, þ. e. að skjóta því til umsagnar þjóðarinnar.

Jeg skal játa, að jeg flutti málið með þeirri von, að það hefði betri byr hjer en það virðist hafa. Auðvitað er ekki hægt að segja, hvernig því hefði reitt af við atkvgr. í báðum deildum.

Jeg tók það fram við 1. umr. málsins, að jeg ætlaðist ekki til, að þessu máli yrði hrundið til framkvæmda meðan svo er ástatt sem nú. Jeg ljet þá í ljós, að stjórnin ætti að hafa nægan undirbúning til þess að athuga, hvernig framkvæmdum skyldi hagað, þegar hentugleikar leyfðu. Það er því ekki hægt að segja, að það liggi beinlínis á að samþykkja lög um þetta einmitt nú.

Það, sem hvatti mig til að flytja málið nú, var, að það kæmi fram áður en landsverslunin væri lögð niður. Ef nú væri horfið að því að selja upp vörubirgðir og tæki landsverslunarinnar, þá væri þetta mál jafnframt til athugunar sem hliðstæður liður í bjargráðaviðleitni löggjafarvaldsins.

Jeg skal taka það fram, að jeg felli mig best við varatill. hv. 2. þm. G.-K. (B. K.). Jeg lít svo á, sem best viðeigandi sje að bera þetta mál undir sýslunefndir og bæjarstjórnir, og enga aðra; þetta er bjargráðamál og heyrir því undir þessi stjórnarvöld að því leyti. Stjórnin getur síðar, ef henni list, leitað álits samvinnufjelaganna og Verslunarráðsins.

Jeg vil taka það fram, ef bera á málið undir öll samvinnufjelög landsins, að þá er sjálfsagt að bera það einnig undir kaupmannastjettina. Mundi hún þá snúa sjer til Verslunarráðsins og Sambands Ísl. samvinnufjelaga.