11.03.1921
Efri deild: 20. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (2911)

29. mál, einkasala á kornvörum

Guðjón Guðlaugsson:

Það er eiginlega óþarfi af mjer að standa upp því hæstv. atvrh. (P. J.) hefir tekið fram aðalatriði þess, sem jeg ætlaði að segja.

Jeg er samþykkur honum í því, að jeg felli mig best við varatill. hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) Samt er jeg ekki samþykkur rökum þeim, sem sami hv. þm. (B. K.) tók fram máli sínu til stuðnings — þeim er jeg ósammála. Það er aðeins niðurstaða hans, samþykt varatill. á þskj. 112, sem jeg tel rjettustu leiðina í þessu máli.

Þegar jeg sá nál. og dagskrána, þá datt mjer í hug, hvort eigi væri verið að leiða asnann inn í herbúðimar, og jeg fann, að hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) skildi það þannig, og jeg bjóst við, að fleiri myndu skilja það þannig. Og mjer fanst eðlilegt, að hv. þm. (B. K.) kæmi með brtt. sína. Nefndin hefir sýnt athugaleysi í því, en þar með er ekki sagt, að hún hafi gert sig seka í neinni hlutdrægni með því að gera ráð fyrir, að einungis væri leitað álits samvinnufjelaganna um málið. Og nú hefir nefndin afsakað það með því að fallast á brtt. hv. 2. þm. G.-K. (B. K.).

Háttv. þm. (B. K.) tók það fram, að rjettast væri að bera mál þetta undir alla þjóðina. En jeg álít einmitt hárrjett að bera málið undir sýslunefndir og bæjarstjórnir, og þar með sje það í rauninni borið undir þjóðina. Áður en málið kemur til sýslunefnda er búið að ræða það á heimilum og á hreppafundum, því að sýslunefndarmenn halda að jafnaði fund með hreppsbúum áður en þeir fara á sýslufund, og þeim er þar gert að skyldu að bera mál þau, er fyrir sýslunefndir koma, fram í samræmi við vilja hreppsbúa.

Líkt er ástatt í kaupstöðum með bæjarstjórnirnar.

Að því er snertir að bæta inn í dag skrána Sambandi ísl. samvinnufjelaga og Verslunarráði Íslands, þá finst mjer, að málið mundi ekki fá óhlutdrægan undirbúning með því móti. Það er alls ekki að búast við því, að verslunarstjettin geti verið óhlutdræg í áliti sínu um þetta mál.

Það eru alls ekki nema menn, sem eru mannlegum breiskleika og mannlegum tilfinningum háðir. Líklegast, að álit þeirra færi í þá átt, sem hagsmunir þeirra benda til.

Það, sem hv. þm. (B. K.) mintist á landsverslunina í þessu sambandi, var alls óþarft. Hann vitnaði þar í sitt kjördæmi og sagði, að nálega hver maður mundi þar á móti landsverslun, og vitnaði í undirtektir kjósenda á nýafstöðnum þingmálafundum þar.

Það getur skeð, að þetta hjerað sje svo gagnsýrt af þessum anda úr Reykjavík. En það er ekki sagt, að hann hafi alstaðar á landinu haft sömu áhrif. Það getur skeð, að almenningur sje á móti einkasölu. Um það er ekki vert að fullyrða neitt. En það er ekki annað en staðlaus staðhæfing að telja alla þjóðina móti landsverslun, þótt einstöku menn hafi þyrlað upp óhróðri um hana, sem á litlum eða engum rökum er bygður, en kann sumstaðar að hafa fengið einhverja áheyrn. Því einmitt þeir menn, sem óhlutdrægt og rólega hafa litið á þetta mál og ekki hafa þar neinna eiginhagsmuna að gæta, hafa flestir alt aðra skoðun á landsversluninni. Og því þykist jeg hafa jafnmikinn rjett til þess að álykta gagnstætt hv. þm. (B. K.) um skoðun þjóðarinnar yfir höfuð á landsversluninni.

Jeg treysti því, að viðskiftanefndin, sem á að athuga þetta mál, komi með óhlutdrægt álit, bygt á eigin rannsókn og íhugun og engu öðru.

Jeg skal svo ekki segja fleira um málið. Jeg vona, að varatill. hv. þm. (B. K.) verði samþ., og mjer þykir einmitt svo fallega gert af honum að gera þetta til samkomulags í málinu, og vona, að hann styðji varatill., fyrst og fremst með atkv. sínu.