11.03.1921
Efri deild: 20. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (2914)

29. mál, einkasala á kornvörum

Frsm. (Sigurður Jónsson):

Það, sem virtist bera á milli nefndarinnar og háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.), var svo lítilfjörlegt, að við gátum jafnað það á þann hátt, að nefndin fellst á varatill. hv. þm. (B. K.) á þskj. 112, og brtt. nefndarinnar og aðalbrtt. hv. þm. (B. K.) kom þar af leiðandi ekki framar til greina, svo um það þarf ekki frekar að ræða.

Jeg álít mjer ekki skylt, og hefi heldur enga löngun til, að ræða um efni frv., heldur aðeins um dagskrána.

Hv. 2. landsk. þm. (S. E.) vjek ekki óvingjarnlega að dagskránni, en tvær athugasemdir verð jeg þó að gera við ræðu hans. Mjer skildist hann halda því fram, að ákveðin hugsun lægi á bak við dagskrá nefndarinnar, sem sje sú, að nefndin ætlaði með henni að koma þessu frv. fyrir kattarnef, svo lítið bæri á. Mjer er illa við, að því sje dróttað að mjer, að hjá mjer liggi önnur hugsun á bak við en sú, sem fellst í orðum þeim, er jeg nota til að móta með hugsun mína. Og jeg get bætt því við, að mjer finst skylt, að deildin fari vel með þetta frv., því hugsunin, sem fellst í því, er góð, og því hefir hv. 2. landsk. þm. (S. E.) alls ekki neitað. (S. E.: Hefi jeg ekki neitað því? Jeg harðneita því.). Hv. þm. (S. E.) gerir þetta þá fyrst nú.

Annað atriði í ræðu hv. þm. (S. E.), sem jeg vil gera athugasemd við, er spurning sú, sem hann sló fram. Hví ætti ekki að spyrja alla þjóðina? Hann á við það, að leita beri þjóðaratkvæðis um þetta mál, á sama hátt og var gert í bannmálinu og sambandsmálinu. En því er þar til að svara, að vilji þjóðarinnar kemur einnig í ljós með því að leita álits sýslunefndar, því sýslunefndarmennirnir fara með umboð kjósenda sinna. Og til að gegna sýslunefndarstörfum eru og vanalega kosnir bestu menn hreppsins, og með því að leggja málið fyrir sýslunefndirnar eru því líkindi til, að hægt sje að fá umsögn og álit bestu manna þjóðarinnar um þetta mál. — Auk þess eru nú hjer á þingi, í hv. Nd., tvö fordæmi þess, að vísa málinu til umsagnar sýslunefnda. Annað málið, sem sú hv. deild hefir vísað til sýslunefnda, er ekki ósvipað því máli, sem hjer liggur fyrir, nefnilega frv. um einkasölu á hrossum. Og í því máli er ekki aðeins leitað álits sýslunefnda, heldur er þeim beinlínis fa1ið að gera út um málið. Hitt málið er berklaveikismálið. Það er stórt og þýðingarmikið mál, og ef til vill meira um það vert en öll verslunarmál, því það eru lifandi menn, sem gera þjóðinni gagn, en ekki þeir, sem deyja fyrir aldur fram.

Hv. Nd. fór þannig með bæði þessi mál eins og nefndin leggur til, að farið verði með korneinkasölufrumvarpið.

Hv. 2. landsk. þm. (S. E.) tók það fram, að þetta mál hefði verið rætt mikið við 1. umr., og hið sama tók jeg og fram. Ef mig minnir rjett, þá voru 5 á móti því, að málið gengi til annarar umr., hinir voru með því. Jeg vona, að þeim hafi ekki fækkað, sem vilja samþykkja það enn, heldur hafi þeim þvert á móti fjölgað.