11.03.1921
Efri deild: 20. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (2915)

29. mál, einkasala á kornvörum

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Eftir því, sem málið liggur fyrir, þá eru það tillögur nefndarinnar, sem um er að ræða, þó frumvapið liggi að vísu fyrir til atkvæðagreiðslu. Það er því ekki rjett að ræða málið á breiðum grundvelli.

Hv. 2. landsk. þm. (S. E.) vildi fara að ræða stefnumuninn á frjálsri verslun og einokun. Hann áleit þetta frv. miða að einokun. Jeg ætla ekki að fara að ræða um það nú, en jeg efast um, að hv. þm. (S. E.) hafi gert sjer mikla grein fyrir, hvað sje frjáls verslun og hvað einokun.

Annað, sem jeg ætlaði að svara, voru þau ummæli hv. þm. (S. E.), að það sje ekki leyfilegt að skoða þetta sem bjargráðamál, heldur verði að skoða það sem tilraun til að koma á einokuninni gömlu. Þetta þykist hann hafa leyfi til að segja, en jeg hefi ekki leyfi til að kalla það bjargráðamál. — Jeg verð að líta svo á, að það verði að skoða tilgang hvers eins frv. þann, sem flm. lýsa yfir að hann sje. Og stjórnin hefir í greinargerð sinni um þetta frv. komist svo að orði um tilgang þess:

„Tilgangur þessa frv. er því í stuttu máli þessi:

a) að tryggja landsmönnum góðar og ódýrar vörur með góðu verði;

b) að varna brauðskorti í landinu, þótt stórar misfellur komi fyrir í árferði og aðflutningum;

c) og loks að varna stórtjóni á búpeningi, þegar óvenjuleg vorharðindi ganga og þar af leiðandi fóðurskortur.“ Þetta er tilgangur frv., og eftir þessum tilgangi er rjett að vísa því til sýslunefnda, ef farið er að bera það undir þjóðina. Hjer er um það að ræða að sameina þessa þrjá liði undir eitt, og þeir heyra allir undir bjargráð. — Að jeg hafi flutt þetta frv. í öðrum tilgangi, það hefir hv. þm. (S. E.) leyfi til að segja, ef hann þekti dæmi upp á slíkt frá minni hendi. Og jeg ætla að biðja hann að nefna dæmi — eitt einasta dæmi — til þess, síðan jeg kom á þing 1894, að jeg hafi nokkurn tíma farið með undirferli eða siglt undir fölsku flaggi.

Svo sagði hv. þm. (S. E.), að hann hefði sjeð feigð á þessu frv. þegar í upphafi, því þetta væri hugsjón, sem aldrei gæti náð fram að ganga. Eins og hv. þm. (S. E.) sagði, er það hugsjón, sú hugsjón, að reka verslun á þann hátt, að hún um leið verði til bjargráða. Mjer þykir hart, að maður, sem mjer vitanlega hefir aldrei hreyft neinni hugsjón eða neina hugsjón haft, svo jeg viti, geri sig digurbarkalegan og sje með hrakspár um hugsjónir annara.