11.03.1921
Efri deild: 20. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í C-deild Alþingistíðinda. (2916)

29. mál, einkasala á kornvörum

Sigurður Eggerz:

Jeg þarf ekki að svara miklu hv. 3. landsk. þm. (S. J.). Þar sem hann sagði, að hann vildi fara sæmilega með frv., þá nálgast það það, sem jeg sagði, að frv. ætti, með þessari dagskrá, að fá sæmilegan dauðdaga.

Hann nefndi sem hliðstæðu, hvernig farið hefði verið með berklaveikisfrv. í Nd. En það er síður en svo, að jeg sje sammála dagskrá háttv. allsherjarnefndar Nd. í því máli. Þar bólar á því sama og hjá nefndinni í þessu máli, að vilja koma sjer hjá að taka afstöðu til málsins, en enn minni sjerþekkingar mun þó verða völ hjá sýslunefndum í berklaveikismálinu en í þessu máli.

Jeg held satt að segja, að þessi einkunar-„bakteria“ — svo jeg haldi mjer við bakteríurnar — hafi komið inn í ýmsa menn gegnum ráðstafanir, sem varð að gera vegna stríðsins. Þá varð að gera ýmsar ríkisráðstafanir vegna verslunarinnar, því þá gátu aðrir en stjórnirnar varla fengið vörur frá út löndum.

Hv. atvrh. (P. J.) talaði hátt og með miklum móð, en fór lítið inn á efni málsins. En það er ekki hægt að ásaka mig fyrir það, þó jeg komi inn á efni frv., því það verður að taka afstöðu til rökstuddu dagskrárinnar eftir því, hvernig menn líta á efni þess.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að jeg yrði að taka málið eins og það lægi fyrir frá hans hendi, og jeg yrði að skilja tilgang þess eins og honum er lýst í greinargerðinni, sem fylgir frv. En jeg verð að dæma frv., ekki eftir greinargerðinni fyrir því, heldur eftir orðalagi þess, því greinargerðin verður ekki staðfest sem lög, heldur innihald frv. Og orðin þau sýna, að hjer er um stórfelda stefnubreyting í verslun landsins að ræða, en björgunarráðstafanir eru aðeins aukaatriði, enda má gera þær, hvor verslunaraðferðin sem er viðhöfð.

En þar sem þetta frv. hefir verið hugsjón hæstv. atvrh. (P. J.) í 20 ár, þá skil jeg ofurvel, að honum tekur sárt til, hve illa deildin tekur móti því. (P. J.: Það er ekki tekið illa á móti því). Hæstv. atvrh. (P. J.) veit, að þetta frv. hefir sáralítinn byr í þinginu, og dagskráin er komin fram af því, að forlög frv., bæði hjer í háttv. deild og í háttv. Nd., eru fyrirfram ákveðin, ef ekki tekst með þessari aðferð að bjarga því frá háðulegum dauðdaga. Jeg hefi aldrei borið hæstv. atvrh. (P. J.) á brýn, að hann sigldi undir fölsku flaggi í þessu máli, en fremur skrifa jeg framkomu hans í málinu á reikning einfeldni hans heldur en hitt, að hann sje visvítandi að bera það fram í öðrum tilgangi en þeim, sem orðalag frv. ber með sjer.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að jeg hefði aldrei haft neina hugsjón. Lengi má um það deila, hver er hugsjónamaður og hver eigi, og þá sjerstaklega um það, hvort einn er meiri hugsjónamaður en annar, en ekki mundi jeg fús á að afhenda mínar hugsjónir fyrir hugsjónir hæstv. atvrh. (P. J.), og vist er um það, að lítið hafa hugsjónir hans gagnað þessari þjóð í sjálfstæðismálum hennar. Og hræddur er jeg um, að þegar 20 ára draumurinn í verslunarmálum verður kunnur þjóðinni, þá muni lítil birta standa af honum.