07.03.1921
Efri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2920)

74. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Flm. (Björn Kristjánsson):

Þetta frv. hefir oft komið fram á Alþingi fyr. Því að það hefir tæplega ekkert þing liðið, nú í seinni tíð, að þessar óskir hafi ekki verið bornar fram.

Eins og tekið hefir verið fram áður, var þetta hjerað um eitt skeið sjerstakt læknishjerað, og sat læknirinn þá í Kjósinni. En nú situr hann í Hafnarfirði, og er því mjög erfitt fyrir Kjósarbúa að sækja hann þangað. Sökum þessa örðugleika hafa þeir oft orðið að vitja læknis til Reykjavíkur, sem þó bæði er örðugt og kostnaðarsamt. Auk þess álita þeir, að margir hafi dáið fyrir tímann, einungis fyrir þá sök, hversu erfitt er að ná til læknis.

Það er því ekki að ófyrirsynju, að þessar óskir koma fram, og jeg skil ekki, að það dragist lengi, að þetta læknishjerað fáist, því þingið getur ekki leitt það hjá sjer. Það vill líka svo vel til, að 11 læknishjeruð landsins eru fólksfærri en þetta mundi verða.

Það þykir nú ef til vill standa illa á að vera að tala um þetta nú, þegar þessi fjárhagsvandræði eru, en mjer hefir ekki betur heyrst en að á hverju þingi hafi verið um þau talað; altaf hefir fje vantað, og þau gjöld, sem af þessu mundu leiða, yrðu eins og dropi í hafi hjá öðrum gjöldum ríkissjóðs. Og þjóðinni ætti þó að vera ljúfast að bera þau gjöld, sem miðuðu að því að varðveita líf og heilsu landsmanna.

Margir kvarta um það, að fólk tolli illa í sveitunum, því að það vilji heldur vera í kaupstöðunum. Jeg hygg, að það stafi af því, hve sveitirnar þykja óvistlegar á veturna, og stærsta atriðið til að gera þær óvistlegar er óefað vöntun á læknishjálp. Jeg tel því þingið verða að vinna að því, að menn telji lifi og limum eins vel borgið í sveitunum eins og í kaupstöðunum.

Á Alþingi 1919 var þetta frv. lagt fram og þá sett í nefnd. Nefndin vildi láta samþ. það, og það gerði deildin líka. Það fór svo til hv. Nd. En þar komu fram fleiri frv. um sama efni, og voru þau svo öll feld þar, nema eitt, Bolungarvíkurhjerað. Stjórnin ljet þá og í ljós, að þetta hjerað verðskuldaði að verða fyrst til að fá sjerstakan lækni.

Óska jeg svo, að frv. þessu verði vísað til fjárhagsnefndar.