04.03.1921
Efri deild: 14. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

74. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Þegar till. um breytingar á læknaskipun landsins eru bornar fram hjer á Alþingi, er það mest gert að ósk einstakra hjer aða, án þess að tekið sje tillit til þess, hvers almannaheill krefur. Væri æskilegast, að slíkum frv. fylgdi umsögn stjórnarvaldanna.

Hjer er von á mörgum þesskonar frv.; tel jeg því rjett, að þau sjeu athuguð saman og rannsökuð í nefnd.

Jeg vil ekki snúast beint á móti þessum frv., því víst mun vera þörf á fleiri læknum í landinu. Þó verður að gera sjer ljóst, að ýmislegt mælir á móti fjölgun lækna nú. Þyngsta mótbáran mun vera sú, að ríkissjóður getur ekki bætt við sig nýjum embættismönnum, nema bráðnauðsynleg sjeu, sökum fjárhagsins.

Önnur er sú, að sum hjeruðin yrðu ekki lífvænleg fyrir þá menn, sem þar ættu að stunda atvinnu. — Að því er snertir þetta hjerað get jeg búist við, að margir sjúklingar úr því leituðu til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar eftir sem áður, því að aðdráttarafl Reykjavíkur í því efni er mikið, og því sterkara, sem hjeruðin eru nær henni. Hætt er því við, að hjeraðið þætti ljelegt frá sjónarmiði læknastjettarinnar.

Þriðja atriðið er læknafæðin, því hjer er ekki hægt að fá nógu marga lækna í þau læknishjeruð, sem til eru. Þannig eru t. d. þrjú hjeruð alveg læknislaus, sem sje Reykjarfjarðarhjerað, Reykhólahjerað og Axarfjarðarhjerað, og aðeins settir læknar í Borgarfjarðarhjeraði og Síðuhjeraði. Þetta hlýtur því að ráða miklu að því er snertir aðstöðu þingsins til þessa frv.

Það er og athugavert fyrir þjóðina, að nú er orðið altítt, að ungir og efnilegir læknar leita til útlanda, og komast þeir þar vitanlega betur af en hjer. Af því leiðir, að læknafæðin helst hjer við, þrátt fyrir venjulega viðkomu af læknum árlega. Á meðan því fer fram, horfir ekki vænlega um læknafjölgun hjer á landi.