04.03.1921
Efri deild: 14. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2922)

74. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Halldór Steinsson:

Jeg bjóst ekki við, að þetta frv. kæmi fram nú á þessu þingi. Eins og kunnugt er, komu fram 5 frv. á þinginu 1919 um stofnun nýrra læknishjeraða. Eitt af þeim, um nýtt læknishjerað í Bolungarvík, komst fram, en hin döguðu uppi og voru öll álitin jafnrjetthá og ættu því að verða samferða út úr þinginu.

Eitt af þeim var um stofnun Hnappdælahjeraðs. Það var fyrst flutt á þinginu 1909, af fyrirrennara mínum, og hefir nær því verið flutt á hverju þingi síðan.

Áhuginn er enn þá hinn sami fyrir því, og þörfin er jöfn. En þrátt fyrir það ætlaði jeg ekki að flytja frv. nú. Fyrst og fremst sökum fjárhagsvandræðanna, og í öðru lagi vegna læknafæðarinnar. Og hið sama býst jeg við að hafi vakað fyrir þeim, sem fluttu hin frumvörpin. En úr því að þetta frv. kom fram, býst jeg við, að við hinir komum með þessi frv. okkar, til þess að þingið geti valið um þau og sýnt, hvert þeirra sje rjetthæst.

Jeg tek þetta fram, nefndinni til athugunar. — Í frv. þessu er ekki tekið fram, í hvaða launaflokki þessi læknir ætti að verða. (B. K.: Jeg ætlaði nefndinni það.).

Þessi mál voru síðast í fjárhagsnefnd, hafa þau vist einhvern veginn vilst þangað, því þau eiga áreiðanlega að vera í allsherjarnefnd. Jeg geri það því að till. minni, að frv. þessu verði vísað til allsherjarnefndar.