09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (2948)

114. mál, sýsluvegasjóðir

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg ætla að leyfa mjer að árjetta það, áður en til atkv. verður gengið, að jeg vona, að hv. deildarmenn verði svo sanngjarnir, að þeir fallist á till. mína, þó að háttv. nefnd hafi ekki sjeð sjer það fært. Jeg bið menn að athuga það, að það er fullhart að láta eina jörð greiða mörg hundruð kr. til vega, sem eru til þess eins, að hækka verð annara jarða. — Margar jarðir yrðu að greiða þennan skatt í ríkulegum mæli, enda þótt þær nytu einskis góðs af vegunum, og er því ekkert rjettlæti í þessu að finna. Það væri sanngjarnt, að þær jarðir, sem liggja næst vegunum, bæru þyngsta hlutann, enda er viðhald veganna mest fyrir þær gert, og eykur það gildi þeirra. Það er og, að margir menn fara vegi þessa, sem engin lönd eiga þar í kring, en eru þó það birgir af lausafje, að vel mættu þeir gjalda nokkuð án þess að á sæi til muna. í raun og veru er frv. ósanngjarnt í alla staði, en hinu neita jeg ekki, að nauðsyn sje að afla tekna, og þar sem nú gerist áliðið þingtíma og lítið tóm gefst til nánari athugunar, tel jeg mjer nauðugan einn kost að greiða frv. atkv. að þessu sinni. En þegar á næsta þingi mun jeg bera fram frv. í aðra átt, ef jeg á þá sæti á þingi, en ef svo er ekki, vona jeg, að sá, sem ris úr rústum mínum, verði mjer ekki lakari að þessu leyti. Það mun verða ógerningur að komast hjá að samþ. frv. nú, en aldur þess ætla jeg ekki lengri en til næsta þings.