20.05.1921
Efri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (2955)

114. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Eins og þeir munu sjá, sem lesa þetta nál., á þskj. 640, um frv. það, sem hjer liggur fyrir, hefir samgöngumálanefndin ekkert horn í síðu þessa frv., þó hún hafi ekki sjeð sjer fært að samþ. það, bæði vegna tímaleysis og þess, sem í rauninni þýðir nú það sama, að hún gat ómögulega gengið inn á að samþ. það óbreytt. Hjer er um frv. að ræða, sem hefir talsvert þung útgjöld í för með sjer, og það útgjöld lögð á þann tekjustofn, sem engin slík útgjöld hefir borið fyr, — fasteignir, og þar á meðal hús leiguliða og húsmanna í sveitum og sjávarþorpum, sem aldrei hefir verið skattlagt. Nú er lagður skattur á þessar eignir í fasteignaskattslögunum og enn fremur sem eignaskattur í lögunum um tekju- og eignaskatt. Og svo ofan á þetta er ætlast til, að lagður sje skattur á þessar sömu eignir til sýsluvega, frá alt að fjórfalt hærri, að því er húseignir snertir, en gert er í lögunum um fasteignaskatt, og alt að helmingi hærri en lagt er í þeim lögum á land og lóðir. Getur nú þingið virkilega búist við, að fasteignaeigendur eða notendur taki þessum álögum með ró og jafnaðargeði, eða má ekki búast við, að sumum þessara gjaldenda verði talsvert erfitt um að inna þessi gjöld öll af hendi, og það á einum og sama gjalddaga, manntalsþingunum, og til viðbótar við aðra skatta, bæði þegar á lagða og svo líklega nýja, til sýslusjóða. Það má nú reyndar segja, að hjer sje ekki um nýtt gjald að ræða, þar sem þessu gjaldi hefir verið jafnað niður á gjaldendur eftir efnum og ástæðum. En það er sá besti grundvöllur í flestu tilliti. Hitt er annað mál, að sú niðurjöfnun getur mistekist, og að sá grundvöllur, sem undir er lagður niðurjöfnunina, er líka alt of einskorðaður — tala verkfærra manna. — En mjer virðist, að breytingin sje alt of mikil, þar sem öllum öðrum er slept við þetta gjald en þeim, sem hafa fasteignir til eignar eða aðeins til afnota. Er nú nokkur sá, hjer í hv. deild, sem ekki sjer, að þetta er varhugaverð breyting og alls ekki heppileg í öllum greinum? Er nokkur, sem getur lítið öðruvísi á, þegar um það er að ræða að leggja á skatt til sjerstakrar stofnunar eða fyrirtækis, að þá sje hann einkum og sjer í lagi lagður á þá, sem stofnunina eða fyrirtækið nota, en hjer í þessu frv. er nauðalítið tillit tekið til þess. Aðeins við eyðijarðirnar.

Jeg ætla þá fyrst að snúa mjer til þeirra, sem slept er við álagningu þessa skatts, og þar næst athuga þá, sem mjer virðist ofþyngt með þessu frv., en skeð getur, að það verði eitthvað litað af minni eigin skoðun, og mega því hv. þm. ekki tileinka nefndinni það alt. Samkvæmt frv. þurfa engir að borga til vegalagninga þeirra, er hjer um ræðir, sem ekki hafa fasteignir til eignar eða afnota, ekki húsmenn, ekki lausamenn, ekki vinnumenn, ekki útgerðarmenn, ekki handverksmenn; engir, þó stórefnaðir sjeu eða hafi miklar atvinnutekjur, bara að þeir verði ekki taldir eigendur húsa eða lóða í kauptúnum nje notendur jarða í sveitum. Stórefnaður maður, sem byggir öðrum eignarjörð sína, hefir skepnur á heyjum og húsnæði fyrir sig, reiknað upp í eftirgjald jarðarinnar, þarf ekkert að borga, af því hann er ekki talinn notandi jarðarinnar. Hann getur þó átt eins margar eða fleiri skepnur en sjálfur ábúandinn; þurft þar af leiðandi meira á vegi að halda, þar á meðal til kaupstaðarins, sem hann flytur til afurðir skepna sinna, sem þangað fara nær því óskiftar, en leiguliðinn þarf ekki að flytja nema lítinn hluta af sínum afurðum, bæði vegna efnaskorts og þess, að hann eyðir þeim að mestu á heimilinu. Lausamaðurinn, sem þarf að ferðast, til þess að reka atvinnu sína, og einnig ferðast sjer til skemtunar dögum oftar, sama tíma ársins, og eyðir þannig tíma og fje, og liggur stundum upp á öðrum, hann þarf ekkert til sýsluvega að greiða. Sjá nú ekki allir, að þetta er nokkuð athugavert? Þá sný jeg mjer að hinu atriðinu, því, hvað einstöku fasteignanotendum er ósanngjarnlega íþyngt með svona einskorðuðum lögum. Vil jeg þá fyrst minnast á húsin til sveita og í sjávarþorpum. Mjer virðist það ærið athugavert að leggja þennan skatt á þau, og það svona háan. Mjer getur ekki verið grunlaust um það, að það verði til þess að draga úr meiriháttar húsabótum, og tel jeg það illa farið, því húsabætur verða að teljast engu síður til framfara en vegabætur yfirleitt. Húsabæturnar eru eitt helsta menningarsporið, er landsmenn hafa stigið, og eru mjög mikið til hagsældar fyrir þjóðina, auk þess sem þær gera líf og heilsu manna og dýra svo miklu öruggari en ljeleg húsakynni.

Þá vil jeg benda á það, að sama nauðsynin er ekki alstaðar fyrir vegabætur, og heldur ekki sömu skilyrði til þess að geta lagt vegi svo, að nokkru haldi komi í hlutfalli við kostnaðinn. Jeg vil t. d. benda á Strandasýslu, Norður-Ísafjarðarsýslu, Barðastrandarsýslu og að miklu leyti Snæfellsnessýslu. Í þessum sýslum má heita, að vegalagningar sjeu ókleifar nema á nokkrum köflum, án óútreiknanlegs kostnaðar. Sumir kaflar eru svo ómögulegir til vegalagninga, að akvegir þar mundu kosta milj. kr. Þessir kaflar verða ekki bættir með hóflegum kostnaði á annan hátt en með gamla ruðningnum. Aftur má nefna aðrar sýslur, eins og Árnes-, Rangárvalla-, Mýrasýslu o. fl., þar sem vegirnir eru lífæðar hjeraðanna, og það fje, sem til þeirra er varið, er lífsnauðsyn. Það mun því mörgum þykja líklegt, að samþyktarlög ættu betur við þar, sem staðhættirnir eru svo ólíkir.

Ekki er hægt að segja, að gjöldin til sýsluvega sjeu svo mjög skorin við neglur eftir frv. þessu, þar sem þau hafa allra hæst verið 55 þúsund krónur, en verða eftir frv. 188 þús. krónur, og þó eru margar sýslur áætlaðar með 2‰, en það má þó gera ráð fyrir því, að þær muni stöku sinnum, svo sem einu sinni eða tvisvar á áratug, vilja ná sjer í styrk úr ríkissjóði, og leggi því hærra gjald á sig, svo það má óhætt gera ráð fyrir fullum 200 þús. árlega til sýsluvega. En svo má nú líta á það, hversu þungt þetta kemur niður á einstakar jarðir, sein eru í háu mati, vegna sjávarhlunninda. Það er gert ráð fyrir því í frv., að eyjajarðir geti orðið skattfríar, og er það ekkert ósennilegt, en þá væri það heldur ekki ósennilegt, að jarðir, sem eru metnar hátt, einungis vegna eyja eða hólma, sem undir þær liggja, fengju líka einhverja ívilnun, þó að bæjarhúsin standi uppi á fastalandi. Jeg ætla nú að leyfa mjer að benda á nokkur dæmi. Broddanes í Strandasýslu á að borga með 2‰ tæpar 70 kr., en ef gjaldið væri nú tvöfaldað eða þrefaldað, þá alt að 200 kr. á ári, og hefir þó sama sem alls engin not af sýsluvegi. Sama gjald á að hvíla á Ófeigsfirði, sem er bær norðast í Strandasýslu, innikreptur af vegaleysum, sem ómögulegt er að bæta, og alt munu teljast hreppsvegir, ef vegi skyldi kalla. Sama er um Eyjar í Strandasýslu, 5 hndr. kot. Heyskapurinn á landi eitt kýrgras; engir vegir, en alt farið á sjó. Vegagjald þar um 50–150 kr. Bær í Hrútafirði með sama gjald, en enga sýsluvegi fyr en langt norður í sýslu, en vitanlega liggur þar um þjóðvegur, svo að segja má, að sú jörð standi best að vígi til þess að leggja öðrum styrk. í Norður-Ísafjarðarsýslu er alt farið og flutt á sjó, enda flestir vegir lítt færir og óbætanlegir.

Þar á Ögurábúandinn að greiða um 50–150 kr. á ári, en Vatnsfjarðar um 80–240 kr., Reykhólar og Skarð á Skarðsströnd um 65–200 kr. hvor. Hólmar í Reyðarfirði sama, Þá kem jeg að lokum að einni jörð í Árnessýslu, Þorlákshöfn. Að öllum líkindum verður bóndinn þar að borga um 1000 kr. á ári til sýsluvega. Kvað þó fremur lítils góðs njóta af sýsluvegunum, en Árnessýsla þurftarfrek í þeim efnum.

Þá ætla jeg að taka tvö dæmi af húsum. Við Reykjarfjörð í Strandasýslu var nýbygt hús í malarvík, einkis nýtri eftir almennum mælikvarða. Húsið og lóðin er virt á 80 þús. kr.; þó tapast helmingur þess, sem það kostar nú í reyndinni, því það var lítið meira en hálfgert, þegar það var virt. Af þessari eign ætti að borga eftir frv. 160–180 kr. í sýsluvegagjald, og eins fyrir það, þó að hún verði alls ekki notuð, eins og nú munu mestar líkur fyrir. Að lokum flyt jeg mig á nýbýlið Jaðar; þar hefir presturinn í Vallanesi bygt hús, sem eru virt á 34 þús. kr.; eftir mínum grun mikið vanvirt, en ekki óvirt. Býlið sjálft er metið á 2600 krónur. Nú er viðbúið, að þessi maður verði að borga kringum 200 kr. sýsluvegagjald, ofan á 59 kr. fasteignaskatt. Þegar þessi hús voru bygð, og eins enn, áttu þau að vera nálega að öllu leyti skattfrjáls, en nú á hann að fá á þau um 240 kr. árlegan skatt. — Er nú þetta ekki nokkuð athugavert? Verður þetta ekki skoðað sem hegning á þá, sem ráðast í meiri háttar húsabætur? Verði þannig litið á af mönnunum sjálfum, þá er hætt við, að það hafi ekki heillarík áhrif.

Þá verð jeg að minna á það, að nálega allar jarðir á landinu hafa not hreppsvegar, og sumstaðar er það mjög mikils virði að fá hann endurbættan, og þar hafa menn annan útgjaldapóstinn, alltilfinnanlegan. Annars dettur mjer í hug, að rjettast væri að leggja verulegan skatt á til þeirra vega, en þar sem þeir væru litlir, vegna þjóðvega eða sýsluvega, þá væri nokkuð af því fje, eða ef til vill mestalt, lagt í sýsluveginn, en lítið eða ekkert þar, sem hreppsvegirnir eru, þeir einu vegirnir, er koma að daglegum notum. Þetta hefir líka verið gert, og er samkvæmt gildandi vegalögum. Annars finst mjer, að þetta skattamál til vega hefði átt að takast til athugunar í föstu sambandi við gjaldstofnana til sýslu- og bæjarsjóða. Það mun reynast illa að taka þessi mál í mörgum pörtum og sitt á hvorum tíma.

Að endingu ætla jeg að lýsa þeirri skoðun minni, að jeg álít mjög varhugavert að leggja mjög þunga skatta á þessar svo kölluðu fasteignir landsmanna, því að þær eru yfirleitt ekkert betri eignir en aðrir fjármunir.