26.02.1921
Neðri deild: 9. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (2963)

12. mál, leyfi fyrir Íslandsbanka að gefa út 12 milljónir í seðlum

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Þann 16. ágúst f. á. voru gefin út bráðabirgðalög, sem voru samhljóða þessu frv. Vil jeg nú gera nokkra grein fyrir framkomu þessa frv.

Fyrst er það, að stjórninni barst brjef frá bankaráði Íslandsbanka, sem skýrir frá því, að seðlafúlga bankans sje að verða ónóg fyrir viðskiftaþörfina, en hins vegar ekki þær kringumstæður fyrir hendi, að hægt sje að útvega nægan málmforða fyrir aukningu seðla.

Stjórnin íhugar nú og athugar ástandið. Við þá íhugun varð hún fljótt sannfærð um það, að ókleift mundi að útvega gull, allra síst í tækan tíma eða nægilega mikið. Bankinn gat ekki annast nauðsynlegar yfirfærslur, hvað þá heldur að hann hefði ráð á að kaupa gull eða auka innstæðu sína í erlendum bönkum.

Þetta var í miðjum júlí. Var nú auðsætt, að ef bæta ætti úr peningaskortinum, svo að nægði daglegum þörfum viðskiftanna, þá væri um tvent að velja. Annaðhvort yrði stjórnin sjálf að gefa út gjaldmiðil, eða leyfa bankanum útgáfu seðla, samkv. ósk bankaráðsins.

Stjórnin tók dræmt í að gera ályktun um málið. Þótti hvort um sig þessara ráða neyðarúrræði. Hún vissi, að það mundi taka of langan tíma að prenta sjerstaka ríkisseðla, og Landsbankaseðlar voru ekki til, svo neinu munaði, og með slíkum seðlum yrði því ekki fyrirbygð stöðvun á útborgunum í Íslandsbanka; enda var stjórnin ekki ánægð með þá aðferð að öðru leyti.

Stjórnin velti málinu fyrir sjer fram í byrjun ágústmánaðar. Hún hjelt, að vegna viðskiftahafta og tregðu mundi seðlanotkunin verða minni. En sú varð ekki raunin á. Snemma í ágúst eru málmtrygðir seðlar þrotnir í Íslandsbanka.

Þá var, eftir áskorun bankaráðsins, heimild veitt til að auka seðlafúlgu þá, sem var í umferð, án þess að málmforðinn væri jafnframt aukinn. Málmforðinn, sem Íslandsbanki þá hafði, nægði þá einungis til tryggingar tæpum 9 miljónum, eftir ákvæðum gildandi laga.

Stjórnin gaf því út bráðabirgðalög, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að leyfa Íslandsbanka að gefa út alt að 12 miljónum króna í seðlum, án aukningar á málmforðatryggingunni. Aukningin, eftir bráðabirgðalögunum, mátti því fara upp í rúml. 3 miljónir kr., og var sú aukning veitt smátt og smátt, eftir þörfum í hvert skifti, og með sjerstök- um samningi.

Aðalatriði samningsins var það, að Íslandsbanki skyldi gjalda í landssjóð af þeirri seðlafúlgu, sem hann hefði í umferð í hvert skifti umfram hið málmtrygða, sömu vexti og forvextir væru samtímis í Þjóðbankanum í Kaupmannahöfn. — Þetta var því eigi, og átti heldur ekki að vera, gróðavegur fyrir bankann, heldur einungis hjálp til að standa við óhjákvæmilegar skuldbindingar.

Heimild laganna var notuð þannig, að seðlafúlgan í umferð varð hæst á 12. miljón. En í árslok var búið að draga inn alla aukaseðlana og rúmlega það.

Ríkissjóður hefir fengið um 44 þús. kr. í gjald af aukaseðlunum. Auðvitað mun hafa verið reynt eftir megni að halda í seðlana, enda hafði bankinn enga hvöt til að sóa þeim ónauðsynlega.

Ef stjórnin hefði neitað um þessa heimild til seðlaútgáfu, hefði varla verið hægt að varna mjög alvarlegum afleiðingum.

Jeg ætla svo ekki að segja fleira að sinni. Nefndin getur fengið hjá mjer nánari upplýsingar og ýms plögg, ef hún telur nauðsynlegt.