04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í C-deild Alþingistíðinda. (2972)

39. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Jeg þori engu að lofa um það, hvort umr. verði langar eða skammar um þetta mál, en býst hins vegar við, að jeg komist hjá því í framsögu minni að þreyta hv. þdm. og sjálfan mig með langri ræðu.

Frv. þetta hefir áður verið útskýrt af hæstv. forsætisráðherra (J. M.), er hann lagði það hjer fram fyrir hv. deild, svo jeg geri ráð fyrir því, að hv. þingdm. sjeu kunnugir orðnir aðalatriðum þess. Auk þess, að nál. hafa komið fram frá meiri og minni hl., hefir mál þetta verið rætt á opinberum fundum hjer í bæ og þm. boðið þangað. Af þessum ástæðum tel jeg því óþarfa að fara út í einstakar greinar frv. og get því að mestu leyti komist af með að minnast á brtt. meiri hl., því að hann leggur til, að stj.frv. að öðru leyti verði samþ. Brtt. meiri hl. eru heldur ekki stórvægilegar, og eiginlega er það aðeins eitt atriði í þessu máli, sem valdið hefir aðalmisklíðinni; það er, hvort því fyrirkomulagi skólans, sem nú er, skuli haldið, eða skólinn verði óskiftur 6 ára lærður skóli. Hjer liggur deiluatriðið, og er í raun rjettri ekki ástæða til að fjölyrða mjög um þetta, enda jafnvel hyggilegra, þar sem meiri hl. hefir fallist á stj.frv., að bíða þangað til andmæli hafa komið frá hv. minni hl.

Samt sem áður mætti fara nokkrum orðum um aðaldrættina, þó að hv. þdm. geti nokkuð ráðið í þá af nál. meiri hl.

Það má líkja þessari skólamentun manna við það, þegar verið er að reisa hús frá grunni, enda er líking sú ekki ný; hún hefir verið notuð og margprófuð á ýmsan hátt og kemur mætavel heim í þessu sambandi.

Hugsum okkur, að tveir menn sjeu að reisa hús. Annar reisir sjer stórhýsi mikið; hinn byggir smátt, aðeins eina hæð. Nú er óhugsanlegt, að báðir mennirnir fari eins að við undirbúning og byggingu þessara húsa. Þegar lagður er grundvöllur undir hús, verður að sniða hann eftir því, hve háreist húsið á að verða. Það er heimska að kosta upp á of sterkan grundvöll undir litla húsið og eyða í hann ærnum tíma og firnum af fje. Þó er enn meiri heimska að reisa hann veikan undir stórt og hályft hús. Hvorttveggja yrði til skaða báðum þessum húsum.

Eins má segja að fari fyrir tveim mönnum, sem ætla að afla sjer mismunandi mentunar.

Annar vill „praktiska“ mentun fyrir lifið. Hann vill verða vel mentaður á þann hátt, hvort heldur sem hann ætlar að verða bóndi, iðnaðarmaður eða skrifstofumaður. Hann vill geta fleytt sjer í tungumálum, þekkja söguna og vita eitthvað í náttúrufræði. Yfirleitt vill hann læra, til þess að verða hæfur maður í hvaða stöðu, sem biður hans að náminu loknu.

Hinn hugsar sjer að verða vísindamaður eða embættismaður, eða það, sem almennast er að kalla það, lærður maður. Því þó að flestir fari hjer inn í embætti, þá verður þó nám þetta að miðast við vísindanám, og undir það verður að leggja öðruvísi grundvöll en þann, sem hinn „praktiski“ maður byggir sína hagkvæmu mentun á.

Eftir að þessir menn hafa lokið barnaskólamentun sinni, er óhugsandi, að þeir geti átt samleið eða farið eftir sömu reglum.

Sá, sem lengra námið ætlar að stunda, verður að byggja sem allra traustastan grundvöll. Hjá hinum „praktiska“ er það í raun rjettri lokanám, takmark í sjálfu sjer, en hjá hinum er þessi þriggja ára skólamentun aðeins byrjun á undirbúningi þess náms, er hann ætlar að stunda næstu 12–14 ár. Hann verður að leggja sem traustastan grundvöll, og hann getur byrjað á honum breiðum með tilliti til námsgreinafjöldans, því hann veit, að fram undan er nægur tími til þess að reisa háa byggingu á slíkum grundvelli.

Þess vegna sýnist heilbrigð hugsun segja manni, að þessir tveir menn geti ekki orðið samferða þetta þriggja ára skeið, án þess að skaða annan eða báða.

Þetta eru þeir tveir flokkar manna, sem samleið eiga í gegnum gagnfræðadeild mentaskólans og neyðast til að lesa hið sama í þrjú ár.

Og það er það, sem frv. stjórnarinnar fer fram á, að þessu sje breytt og nemendur þessir skildir í sundur, svo að hver fái að byggja við sitt hæfi.

Jeg held, að það sama yrði uppi á teningnum frá hvaða sjónarmiði sem þetta yrði tekið. Þessir tveir flokkar ungra mentamanna hljóta að tefja hvor fyrir öðrum.

Vegna þess manns, sem lærða veginn ætlar að ganga, verður að hamra inn í gagnfræðinginn ýmsu algerlega gagnslausu fyrir hann, en sem nauðsynlegt er hinum, svo sem málfræðisstagl, sem gagnfræðingurinn fær alt of mikið af, en hinn þó ekki nóg. Er alveg óhæfilegt að neyða gagnfræðinga til þess að eyða dýrmætum tíma sínum í slíkt, því það er margsýnt og viðurkent, að hægt er að ná fullri hagnýtri málakunnáttu án þess. En hitt er jafnsatt, að þessi rambygði málfræðisgrundvöllur er nauðsynlegur þeim, sem vísindalega ætlar að stunda þetta nám.

En gagnfræðingurinn borgar fyrir sig aftur með þeim skaða, sem hann gerir hinum lærða, því hans vegna er farið á of miklu hundavaði yfir undirstöðuatriðin. Það er hjer, eins og ávalt, að þegar samrýma á það, sem ósamrýmanlegt er, þá verður það báðum til skaða, og má hjer ekki milli sjá, hvor ver verður úti.

Jeg held, að að sama brunni mundi bera með hvaða námsgrein sem við tækjum, að þessir tveir flokkar eigi ekki samleið um að læra hana.

En jeg skal t. d. nefna söguna, af því að ráðunautar stjórnarinnar hafa sjerstaklega bent á hana. Af því að hjer er um gagnfræðaskóla að ræða, verður sögukenslan í 3 neðstu bekkjunum að sníðast eftir því og fljótara yfir sögu að fara en ella. Þeir, sem lengra halda, þurfa svo að byrja á nýjan leik, þegar samvistum þeirra slítur. Það liggur í augum uppi, að betra hefði verið og notadrýgra að geta lagt fast „plan“, ábyggilegan grundvöll, fyrir þessi 6 ár lærða skólans.

Og sama er að segja um tungumálafræðsluna. Það er óhentugt fyrir þá, sem læra vilja eitthvert mál, t. d. þýsku, ensku eða frönsku, að hamrað sje inn í þá málfræðislegri þekkingu, eins og þá, sem ætla að verða vísindamenn. Þessir menn geta lært málið vel og flogið út um víða veröld, án þess að kunna nokkuð í málfræði, enda er ekki gerð krafa til þess af þeim, sem vit hafa á, en slík kunnátta er vitanlega óafsakanleg hjá þeim, sem lærðir vilja vera.

Og sama máli gegnir um náttúrufræðina.

Það sýnist vera heppilegt í gagnfræðaskólunum, að nemendurnir fái smekk af helstu greinum náttúrufræðinnar. En að flæmast yfir stutt ágrip á þessum 3 árum, eða í neðstu bekkjunum, tefur fyrir þeim, sem lengra halda; þeir verða þá, eins og viðar, að byrja aftur að reisa grundvöllinn.

Og það er á þessum grundvelli, sem ráðunautar stjórnarinnar byggja skoðanir sínar, sem fram eru bornar í frv. því, sem hjer um ræðir.

Enn vil jeg minnast á eitt atriði, og það eru inntökuskilyrðin. Þau eiga ekki að vera þau sömu í lærðum skóla og gagnfræðaskóla. Í hugtakinu gagnfræðaskóli felst það beinlínis, að þangað á sem allra flestum að vera opin leið. Slíkt er aftur á móti ekki heppilegt fyrir lærðan skóla. Best, að þangað inn sleppi þeir menn einir, sem vel treysta sjer, og að ekki sje þar nein laxagildra, til að veiða í sem flesta nemendur.

Ein helsta ástæðan, sem færð hefir verið fyrir því að breyta mentaskólanum, er samþ. við Akureyrarskólann. Þetta er mörgum mjög viðkvæmt mál, einkum Norðlendingum, og telja þeir það bæði metnaðarmál og fjárhagsmál, að sambandið milli skólanna haldist,

Að því er fjárhagslegu hliðina snertir, þá skal jeg fúslega játa, að fyrir Akureyringa sjálfa og menn úr nærsveitunum er þarna ódýrara nám. En fyrir aðra er það ekki dýrara að sækja hingað, eða að minsta kosti lítið dýrara, því þó menn hafi talsvert hylst til þess að ganga á Akureyrarskólann, þá er það af þeim ástæðum, sem ekki koma beint þessu máli við, sem sje vegna heimavistanna þar. Þær hafa gert skólavistina á Akureyri ódýrari, gagnlegri og skemtilegri en ella, og öll stjórn skólans orðið auðveldari fyrir bragðið. En nú hefir þessi hv. deild samþ. þál. til stjórnarinnar um að undirbúa heimavistir við skólann hjer, og þegar það er komið í kring, ætti alls ekki að vera að neinu leyti óaðgengilegra fyrir pilta að sækja skólann hingað en til Akureyrar. Mætti fremur segja, að það yrði fýsilegra, vegna þess að við þann skóla mun að líkindum verða fjölskipaðra og fullkomnara kennaralið. Heimavistir við þennan skóla er svo stórvægilegt atriði í mínum augum, að ekkert fyrirkomulagsatriði er meira virði. Vil jeg jafnvel telja það mikilsverðara en hitt, hvort skólinn er tvískiftur eða ekki. Auk þess má benda á það, að vel mætti koma Akureyrarskólanum þannig fyrir, að duglegir piltar þaðan geti tekið hjer próf upp í 4. bekk, með því að leggja á sig nokkurn aukalestur meðan þeir stunda námið á Akureyri. Held jeg það engu verra, þótt þaðan kæmu aðeins góðir menn og duglegir, þótt færri væru. Mætti meira að segja búa svo um, að þeir, sem það vildu, gætu átt kost á kenslu, er til þessa þarf, í skólanum eða í sambandi við hann, einkum í latínu.

Um hitt atriðið, að þetta sje metnaðarmál fyrir Akureyringa, er það að segja, að jeg veit ekki, hve sá metnaður er algengur. Ætti og eigi siður að vera metnaður fyrir þá að hafa þar stærsta og besta gagnfræðaskóla landsins, heldur en hafa þar einskonar undirdeild lærða skólans hjer.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta atriði meira að sinni, en bið þess, að andmæli komi fram frá hv. minni hl. nefndarinnar.

Þá vil jeg minnast nokkrum orðum á brtt. meiri hl., og reyndar nefndarinnar allrar, við frv.

Það er þá fyrst örlítil orðabreyting, að fyrir „bókmentadeild“ komi málfræðideild. Okkur þótti það betur fara, vegna þess að í þeirri deild mun meiri áhersla lögð á málfræði, í mótsetningu við stærðfræði, en „bókmentir“ er aftur á móti svo yfirgripsmikið orð, að það gæti náð yfir hverja námsgrein sem væri, jafnt í báðum deildum.

Næsta brtt. er við 4. gr., um það, að „bókmentafræðin“ falli niður. Ráðunautar stjórnarinnar hafa hugsað sjer sjerstaka kenslu í þeirri grein. Gera þeir ráð fyrir, að lesin verði og skýrð fyrir nemendum bestu rit heimsbókmentanna. Því ber síst að neita, að slík kensla gæti orðið gagnleg og vekjandi. En við teljum þó vafasamt, að hjer sje um fræðigrein að ræða, sem sje heppileg fyrir menn á þeim aldri, sem um ræðir. Að minsta kosti veit jeg það, að jeg mundi ekki á mentaskólaárum mínum hafa haft gagn af slíkri kenslu, og var jeg þó ekkert sjerlega ungur í skóla. Piltar um 17 ára aldur munu yfirleitt ekki vera orðnir sjálfstæðir í hugsun, og því mestar líkur til, að þeir mundu tileinka sjer skoðanir kennarans á þessum efnum ómeltar. En það er alls ekki heppilegt. Nú eru ýmsar stefnur uppi í bókmentum, og því ekki gott að veita einum manni, sem fylgdi ákveðinni stefnu, svo mikið vald yfir nemendum sínum. — Má þar til nefna Brandesarstefnuna, og býst jeg við, að mörgum mundi illa við að láta skýra öll ritin samkvæmt þeirri stefnu. Sama máli væri að gegna, ef kennarinn hefði einhverja trúarlega kreddustefnu og skýrði ritin samkvæmt henni. Þessi kensla mundi því koma háskólamönnum að meira gagni. Þeir mundu ekki gleypa við öllu, heldur gagnrýna skoðanir kennarans. Það er afarnauðsynlegt að gera sjer þess glögga grein, hvað hverjum skóla tilheyrir. Og jeg held, að þetta nám heyri til hinni æðri mentun.

Enn er brtt. við 4. gr., um að fella fjelagsfræðina niður. Það er í raun rjettri aðeins orðabreyting. Fjelagsfræðina má og á að kenna samhliða sögunni. Sjálfsagt, að það fylgist að, en fjelagsfræðin sje ekki tekin út úr sem sjerstök námsgrein.

Síðasta brtt. við 4. gr. er orðabreyting, að í staðinn fyrir „hannyrðir“ komi handiðnir. Okkur þótti það betur fara og vera meira í samræmi við mælt mál.

Þá er brtt. við 5. gr. Við höfum þar felt niður hin svo kölluðu skyndipróf. Þessi próf eru til þess ætluð, að kennarar geti komist eftir kunnáttu nemenda sinna á hvaða tíma sem er. Kennararnir geta þá komið að nemendunum óvörum með prófin. Það má vera, að þetta hafi nokkuð til síns máls. En mjer finst þetta satt að segja „ill meðferð á skepnum“, að láta nemendur jafnan eiga slík próf yfir höfði sjer. Auk þess er ekki að vita, nema þessi próf geti orðið alltímafrek, og með þessu móti hljóta nemendur að missa próflestur og það gagn, sem af honum leiðir, en próflesturinn er einmitt kann ske mesti kostur prófanna. Jeg held, að það sje því ekki rjett að setja þetta í lagabálk, sem ekki er hægt að breyta, nema með vilja og samþ. þingsins. Hitt væri fyrir sig, að setja einhver ákvæði um þetta í reglugerð skólans, ef það þætti nauðsynlegt.

Enn er brtt., um að einum prófdómara skuli vera fleira við stúdentspróf en stjórnarfrv. gerir ráð fyrir. Er það til þess gert, að það komi greinilega í ljós, að mest sje upp úr því prófi leggjandi. Þá skila nemendur af sjer, enda fylgir sú prófseinkunn þeim svo að segja alla æfi.

8. gr. þótti okkur rjett að fella niður, og er það afleiðing af breytingu okkar á 5. gr.

Brtt. við 9. gr. gengur út á það að fella niður efra aldurstakmarkið. Samkvæmt stjórnarfrv. er efra aldurstakmarkið til inntöku í 1. bekk 18 ár. Ástæður fyrir þessu eru þær tilfærðar, að annars muni menn í skólanum verða á mjög misjöfnu þroskaskeiði, og sje það óheppilegra fyrir skólann. Við höfum ekki getað fallist á, að þessi ástæða sje rjettmæt. Þvert á móti lítum við svo á, að skólanum sje fengur að slíkum mönnum. Ef þeir eru þroskaðri en hinir, þá bera þeir sjálfir skaðann af því að fylgjast með þeim, en þann skaða geta þeir bætt sjer upp með því að lesa meira en fyrirskipað er. En ef þeim væri skaði að þessu, þá væru engar líkur til, að þeir sæktu skólann, og þá óþarft að banna þeim það með lögum. En skólanum sjálfum er vafalaust fengur í rosknum piltum. Þeir eru oftast nær hjálparhellur hinna yngri. Þeir hugsa málin með skynsemd og stillingu og eru ekki með neinn ærslagang. Þannig var það þegar jeg var í skóla, að þessir menn voru fyrirmyndir annara skólapilta í hvívetna, bæði um námið og ekki siður um skólalifið og ýms skólamál.

Þá vil jeg minnast á brtt. okkar við 10. gr. Það er að líkindum sú brtt., sem mest mun orka tvímælis. En jeg vil taka það fram strax, að við leggjum á hana talsvert mikla áherslu. Þessi brtt. hljóðar um það, að latína skuli verða skyldunámsgrein til inntöku í 1. bekk. Ástæðurnar fyrir þessari breytingu eru nokkurn veginn skýrt teknar fram í nál.; þarf jeg því ekki miklu við það að bæta. En aðaltilgangurinn er sá með þessu, að marka skólanum sem skýrasta sjerstöðu. Með því er slegið föstu, að latínan skuli vera aðalnámsgreinin, sem skólinn leggi höfuðáhersluna á. Er þetta eina tækifærið, sem lögin gefa til þess að marka skólanum þessa sjerstöðu. Þetta ákvæði er ekki bygt á neinni tröllatrú á því, að latínan sje best allra námsgreina. En við sáum, að á einhverja námsgrein þurfti að leggja mesta áherslu, og fundum þá ekki aðra grein heppilegri en latínuna.

Um þetta geta vafalaust verið skiftar skoðanir. Sumir mundu leggja til, að þessi höfuðnámsgrein yrði t. d. stærðfræði, aðrir náttúrufræði og enn aðrir, að það yrði eitthvert af nýju málunum. Og með góðri kenslu má taka hvaða námsgrein sem er, en þó er aðstaðan ekki alllítið mismunandi. Ef t. d. náttúruvísindi yrðu gerð að aðalgrein, þá gæti ekki hjá því farið, að afarmikið yrði komið undir kennaranum sjálfum. Þar er ekki um neinar fastar og ákveðnar kensluaðferðir að ræða, og auk þess þarf allmikið af kensluáhöldum, ef vel á að vera, og sumar greinar náttúruvísinda er ekki hentugt að kenna eingöngu bóklega og að vetri til inni í húsi. En um latínuna er nokkuð öðru máli að gegna. Hún er gömul og hefir verið kend meira en nokkurt annað mál. Sú tunga er og mjög ítarlega rannsökuð og kenslugögn mjög fullkomin og góð. Jeg held því, að við mundum gera viturlega í því að troða hjer ekki nýjar brautir, því öll byrjun er erfið. Það yrði heppilegra að láta aðrar þjóðir leggja út á þær brautir fyrst, og ef þeim reiddi vel af, mætti vel hlýða, að við fetuðum í fótspor þeirra. Jeg held því rjettara að halda sig að hinum gamla siðnum í þessu efni, en hlaupa ekki eftir spádómum einstakra manna, sem við enga reynslu hafa að styðjast.

Önnur, og höfuðástæðan, fyrir því að kenna latínuna undir skólann, er sú, að undirstaðan verður betur lögð á heimilum einstakra manna en í skólanum sjálfum.

Í skólanum eru margir nemendur saman, og því kemur þeim kenslan þar að minna haldi en á heimilum einstakra manna, þar sem sjaldnast eru saman nema tveir eða þrír nemendur. Enda hafa og slíkir heimaskólar reynst drýgstir til latínunáms.

Þá má og á það minna, sem jeg sagði áður um inntökupróf yfirleitt í lærðan skóla, að þau eigi ekki að vera óhæfilega ljett eða lokkandi. Með því að hafa latnesku þegar í upphafi fá menn strax að sjá, að hverju þeir ganga, og er það rjett og sjálfsagt um þá námsgrein, sem mikla áherslu á að leggja á í skólanum. Mætti fleira með þessu færa, en jeg skal þó ekki gera það að sinni.

Þá er brtt. okkar við 16. gr. aðeins til samræmis í sambandi við brtt. þær, sem við höfum gert við 4. gr.

Fyrsta brtt. við 17. gr. er aðeins leiðrjetting á prenvtillu. Þá hefir nefndin gert þá brtt. við 17. gr., að hún hefir felt burt það skilyrði, að umsækjandi skuli hafa lokið embættisprófi til þess að geta orðið kennari við skólann. Það má auðvitað færa þá ástæðu gegn þessari till., að órjettlátt sje að undanskilja þessa menn frá að ljúka prófi í námsgrein sinni, þar sem öllum öðrum embættismönnum þjóðarinnar er lögð þessi skylda á herðar. En þar sem ætla má, að hörgull verði á þessum mönnum, eins og áður hefir verið, þá sýnist ekki ástæða til að gera skilyrðin fyrir kennarastöðu svo þung, því vitanlegt er, að gera yrði undanþágu frá þessu ákvæði, ef eigi skyldu vera fyrir hendi menn með prófi í námsgrein sinni, þegar kennara kynni að vanta að skólanum, og er það öllu lakara að verða að ganga á bug við lög og reglugerð skólans. Reynslan sýnir og, að margir hinna ágætustu kennara skólans hafa eigi haft embættispróf, og þetta bendir því síður en svo í þá átt, að hjer sje hin minsta hætta á ferðum.

Þá er og brtt. við síðasta málslið sömu gr., um að kennurum sje skylt að láta af embætti er þeir eru 65 ára að aldri. Við höfum lagt til, að þetta ákvæði falli burt. Það er að vísu eigi heppilegt, að mjög gamlir menn sinni kennaraembættum, því þeim er hætt við að trjenast og þreytast og taka eigi til greina tilhlýðilegar kröfur til nauðsynlegra umbóta. En þó er þetta engan veginn algild regla, og margur kennarinn á eftir sín bestu kensluár eftir 65 ára aldur. Og að heimta af kennurum, að þeir láti af embætti við 65 ára aldur, þótt þeir finni sig færa til kenslunnar, finst okkur varla geta talist sanngjarnt, meðan ekkert aldurstakmark er sett öðrum embættismönnum þjóðarinnar, því vjer fáum ekki sjeð, að þeir hafi svo skýra sjerstöðu í þessu efni.

Þá hefir meiri hl. lagt til, að skólaráðið falli burt. Hann óttast, að þetta skólaráð verði einungis til tafar, og ef til vill gæti leitt margvísleg óþægindi af því að hafa svona millilið milli skólastjórnarinnar og stjórnarinnar. —Skólaráðinu er, samkvæmt frv. að reglugerð skólans, ætlað talsvert verksvið og vald, og það svo, að skólaráðið mundi allvíða grípa inn á valdsvið skólastjóra og kennarafunda. Óttast nefndin, að þetta alt sje óheppilegt.

Jeg hefi ekki getað fylgt hv. samnefndarmönnum mínum í þessu. Jeg er þeirrar trúar, að slíkt skólaráð mundi ekki þurfa að verða neinn milliliður, heldur nálega í hverju máli verða algerð yfirstjórn skólans, því að stjórnarráðið mundi skoða huga sinn tvisvar áður en það kollvarpaði úrskurðum ráðsins. En það tel jeg víst, að slíkt skólaráð mundi að jafnaði hafa miklu meiri áhuga á skólanum en hægt er að vænta af einni deild stjórnarráðsins. Án þess að jeg vilji á nokkurn hátt kasta hnútum í þessu efni, þá vita þó allir, að ráðherra sá, sem með kenslumál fer á þessum og hinum tíma, er skipaður af Alþingi með alt annað fyrir augum en gagn þessa skóla.

Þá er nefndin og á móti skólagjaldinu. Auðvitað er það fánýt ástæða, sem færð hefir verið á móti því, að skólavistin verði svo dýr, ef skólagjald verður lögleitt, því ætlast er til, að það verði einmitt til styrks fátækari námsmönnum. Að vísu eiga allir að gjalda það, en svo eiga þeir efnaminni að fá það endurgoldið, að viðbættu gjaldi hinna efnaðri. Þetta á því einmitt að miða að því að styðja efnalitla nemendur. En nefndinni finst varhugavert að láta nokkra nemendur greiða skólagjald, sem gengi til styrktar hinum. Leiðin á milli þess, sem borgar, og hins, sem þiggur, er of stutt, og því of líkt því, að einn lærisveinninn lifi af öðrum, og þeir, sem þægju, fengju oft orð í eyra um, að þeir væru upp á hina komnir, sem skólagjaldið intu af hendi.

En auk þess er mjög varhugavert og jafnvel ranglátt að innleiða skólagjald í þessum eina skóla ríkisins. Annað mál er það, hvort tiltækilegt þætti að koma á skólagjaldi í ríkisskólum yfirleitt. Það er aðeins í slíku sambandi, að til mála gæti komið að innleiða skólagjald í þessum skóla. En þó að nefndin láti svo um mælt, þá er það alls ekki af því, að hún vilji leggja til, að gjald verði leitt í lög í þessum skólum. Hún lítur þvert á móti svo á, að það muni ekki vera tímabært.

Þá ætla jeg að það sje eigi fleira, sem sjerstaklega þurfi að taka fram viðvíkjandi brtt. meiri hl., en að sjálfsögðu mun frsm. minni hl. (Þost. J.) gera grein fyrir áliti hans og þeirri rökstuddu dagskrá, sem minni hl. hefir borið fram, og verður þá hægra til andsvara, er hann hefir lokið máli sínu.

Þó skal jeg gera grein fyrir því með nokkrum orðum, hvernig jeg lít á dagskrána.

Minni hl. leggur til, að frestað verði að samþ. frv. um mentaskólann, uns milliþinganefndin hefir lokið rannsókn sinni um alla skóla landsins. Jeg get ekki komið auga á það, á hverju slík rökfærsla byggist, af því að nefndin hefir þegar lokið rannsókn sinni á mentaskólanum og vill láta taka þann skóla út úr skólakerfinu. Þótt nú verði frestað að taka ályktun um mentaskólann, þá getur það eigi leitt til þess, að milliþinganefndin taki upp rannsókn á honum á ný, því hún hefir þegar gert ákveðnar tillögur um fyrirkomulag hans, heldur verða þær sömu tillögur lagðar fyrir næsta þing. Ef minni hl. hefði athugað þetta rjett, þá hefði vitanlega verið meiri samkvæmni í því að leggja til, að frv. verði felt.

Í þessum skólamálum hafa komið fram ærið sundurleitar skoðanir, og það bendir á það, að eigi muni auðvelt að samrýma hugi allra um þetta mál, heldur muni þær deilur, sem þegar eru hafnar, leiða til enn þá meiri glundroða. Það getur verið gott að ræða málin, en langar umræður lenda oft í því, að málin „forvrövlast“ miklu meir en þau upplýsast. Og mjer er nær að halda, að komnar sjeu þegar fram þær tillögur, sem líklegt er að bygt verði á í þessu máli, og því sje ekki að vænta staðgóðra upplýsinga um það hjeðan af.

Þá er minst á það í nál. minni hl., að nemendur skólans og nokkrir kennarar sjeu andvígir þessari fyrirhuguðu breytingu á skólanum. Undarlegt er að heyra það um kennara skólans, því þeir, sem nefndin hefir haft tal af, hafa talið sig breytingunni hlynta. Viðvíkjandi breytingunni, sem námsmenn skólans vilja gera á þessu frv. þá er það eigi nauðsynlegt að taka þær upp í lög um skólann, heldur miklu fremur upp í reglugerð skólans.

Annars lúta röksemdir minni hl. mest að því að hafa skólann tvískiftan, eins og nú. En þá finst mjer miklu sæmra að fella stj.frv. en að fresta málinu, ef þingið aðhyllist þá skoðun minni hl.

Viðvíkjandi þeim ástæðum minni hl., að stofna þyrfti gagnfræðaskóla hjer í Reykjavík, ef gagnfræðadeild mentaskólans yrði afnumin, nægir að benda á það, að gagnfræðadeild mentaskólans hefir sama sem ekkert verið notuð af öðrum en þeim, er gengið hafa gegnum lærdómsdeildina líka. Þörfin fyrir gagnfræðaskóla hjer sunnanlands er því nákvæmlega jafnmikil, hvort sem mentaskólinn verður óskiftur eða eigi. Eftir skýrslu ráðunauta stjórnarinnar hafa 931/2% nemenda, er gengið hafa inn í skólann síðastl. ár, lokið stúdentsprófi. Af því sjest, hve örlítill hluti nemenda hefir gengið í skólann með það eitt fyrir augum, að taka gagnfræðapróf, því vitanlega má draga eitthvað frá þessari tölu — 61/2% — því ætlun sumra þessara námsmanna hefir óefað verið að ná stúdentsprófi, þótt atvik hafi tálmað því, eins og jafnan verður. Þetta ber því alt að sama brunni, að mentaskólinn er ekkert notaður til gagnfræðanáms eins.

Þá segir háttv. minni hl., að ágreiningur hafi verið í nefndinni um þetta aðalatriði: Minni hl. vilji hafa skóla landsins í einu kerfi, en meiri hl. ekki. Í áliti minni hl. stendur þetta:

Milliþinganefndin og samnefndarmenn okkar vilja hafa þrjár greinar, aðskildar, alla leið neðan frá barnafræðslunni:

1. lærða skólann og háskólann,

2. kennaraskólann og

3. alþýðuskólana.“

Jeg mótmæli þessu algerlega fyrir sjálfs mín hönd og samnefndarmanna minna. Það var ekki minst á þetta í nefndinni. Það, sem meiri hl. fjelst á, var einungis að taka lærða skólann út úr sambandi við aðra skóla landsins, en hitt hefir eigi komið til orða, að taka kennaraskólann út úr sambandi við alþýðuskólana, því það lá alls ekki fyrir nefndinni.

Annars er minni hl. sundurþykkur um þetta atriði. Annar hv. nefndarmannanna (Þorst. J.) vill láta lærða skólann Og kennaraskólann rísa upp af alþýðu- og gagnfræðaskólunum, en hinn nefndarmaðurinn (E. E.) hefir enn ekki tekið afstöðu til þessa atriðis. Með öðrum orðum, af því að þeir eru sundurþykkir um þetta, þá vilja þeir láta málið bíða. Þess vegna er þýðingarlaust fyrir þá, sem nú hafa tekið afstöðu um þetta skipulag mentaskólans, að greiða dagskránni atkv. En þeir, sem vilja hólka fram af sjer að íhuga málið frekar, og humma yfir úrslitunum, þeir hafa hjer í þessari dagskrá farkostinn til þess að sigla frá erfiðinu í þessu efni. Skal jeg svo ekki orðlengja frekar um málið að þessu sinni.