04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (2977)

39. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Sigurður Stefánsson:

Jeg hefi nú hlýtt á mál hv. þm. og skal taka það fram þegar, að jeg mun greiða atkv. með stjórnarfrv. Jeg er nú orðinn gamall maður og man bæði fortíð og nútíð þessa máls. Minnist jeg þess, að þegar heimavistirnar voru lagðar niður við lærða skólann, þá þótti mjer það hið mesta óráð. Gleður það mig mikið, að nú skuli skriður á kominn að bæta úr þessu mikla meini. — En það var eins og eins ógæfan byði annari heim í skólamálum vorum. Skólinn var gerður að þeim viðrinisskóla, sem hann enn er, og hefir sú ankannalega samsteypa orðið þjóð vorri til hinnar mestu bölvunar. Ávextirnir af þessu fyrirkomulagi eru gutlmentun, sem hvorki er heilt nje hálft.

Forna rómverska málshættinum „non multa, sed multum“ hefir verið snúið við, og því er svo komið sem komið er.

Gleður það mig mjög mikið, að ráðunautar stjórnarinnar skuli hafa sjeð nauðsynina á því að breyta þessu aftur í gamla horfið, þó mjer hins vegar sýnist, að þeir muni tæplega nógu langt gengið hafa. Það hefir oft verið talað um það hjer á þingi, og þar á meðal af mjer, að málin væru eigi nógu rækilega undirbúin, og nauðsyn bæri til, að stjórnin legði síðustu hönd á verkið. því að annars gæti það talist flaustursverk, og það jafnvel þó að milliþinganefnd og þingnefndir hefðu um málið fjallað. En hjer er þessu ekki til að dreifa. Þetta mál hefir fengið rækilegan undirbúning.

Er því einkennilegt af háttv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) að segja, að mál þetta sje illa undirbúið. Er þetta því einkennilegra, þar sem fyrir nokkrum dögum kom hingað þingm.frv. frá hv. Ed. um vandasamt og þýðingarmikið mál, en þó þótti hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) og fleirum engin þörf á því að setja það í nefnd. Var máli þessu þó þannig varið, að full þörf var á að athuga það, og það því frekar, sem fáir vissu um undirbúning þess undir meðferð þingsins, eða hverjir höfðu unnið að því, og stjórnin enga meðgerð haft með það. Sýnist vera hjer um meir en litla ósamkvæmni að ræða. Annars fæ jeg ekki skilið afstöðu minni hl. til þessa máls, því að háttv. frsm. hans (Þorst. J.) sagðist vera samdóma brtt. meiri hl. um flest atriði málsins, en því undarlegra sýnist mjer, úr því hann hefir komist að þessari niðurstöðu, að hann skuli þá ekki geta fylgt meiri hl. að málum. Jeg þykist raunar vita, að þeir muni þau tilsvör veita, að málið sje rifið út úr samhengi þess, sem rannsaka átti, og því sje tíminn eigi enn kominn til þess að samþykkja það. En jeg fæ ekki sjeð, að milli fyrirkomulags lærða skólans og nokkurra annara lægri skóla sje nokkuð samband, sem hamli því, að þetta sje samþ. Hjer er sem sje um þann mikla mismun að ræða, að lærði skólinn er ekki beinn undirbúningur undir alþýðu- og barnaskólana, heldur undir háskólanámið. Af þessum sökum er þetta algerlega sjerstakt mál og lærði skólinn sjerstakur skóli, og því var það fyllilega rjett af ráðunautum stjórnarinnar að byrja á honum. Var það hvorttveggja, að það var umfangsminna að fást við hann en alla hina skólana, en þurfti jafnframt bráðra umbóta við.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) hefir ekki hvað síst viðurkent, að mentaskólinn væri ekki svo sem skyldi, og því óbeinlínis viðurkent, að breyta þurfi til batnaðar. Er það því undarlegra, að þeir skuli þá vilja fresta málinu; væri skiljanlegra, að þeir kysu heldur að fella frv. ef von væri að fá eitthvað, sem þeir gætu betur felt sig við, í staðinn. En við frestun getur ekkert unnist, því að bæði stjórnin og ráðunautar hennar hafa gengið frá málinu, og jeg býst satt að segja varla við því, að röksemdir hv. minni hl. fái nokkru um þokað. Þá hefir því verið haldið fram, að dráttur væri nauðsynlegur, svo að þjóðin fengi að rökræða málið. Jeg ber fulla virðingu fyrir alþýðu þessa lands, en því býst jeg eigi við, að frá henni komi mikilsverðar leiðbeiningar í þessu máli til næsta þings. Svona mál fara að mestu fyrir ofan garð og neðan hjá alþýðunni, þó skynsöm sje. Það eina, sem hafast mundi upp úr biðinni, væri það, að hætta yrði á því, að mikið starf og mikill kostnaður færi í lítið eða ekkert. Hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) sagði, í sambandi við það nýmæli að gera latínu að inntökuprófsskilyrði, að hann teldi það illa ráðið og yfirleitt rangt að herða á inntökuskilyrðunum. Jeg er hjer alveg á gagnstæðu máli og álít, að inntökuprófið eigi að vera strangt.

Inntökuprófin í mentaskólann í seinni tíð hafa verið lin og gagnslaus. Menn hafa verið teknir inn í skólann, sem ekki áttu þangað að komast. En verði latína inntökuprófsskilyrði, þá stöðvar hún hið mikla aðstreymi að mentaskólanum, og það tel jeg mikinn kost. Þetta aðstreymi er orðið alt of mikið.

Að vísu sagði hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.), að hann væri ekki myrkfælinn við það, að stúdentar yrðu margir. Jeg er ekki myrkfælinn við það, en jeg er hræddur við það, sjerstaklega ef möguleikarnir til sæmilegra lífskjara eru litlir eða engir fyrir þennan vaxandi stúdentafjölda. Og það er viðurkendur sannleikur, að enginn stjett sje óþarfari í nokkru landi en lærður öreigalýður, og mjer sýnast öll sólarmerki á því, að vísirinn sje að myndast hjer til þessarar stjettar. Það er ekki svo að skilja, að jeg álasi þessum mönnum, en jeg tel þá aumkunarverða. Þessir menn hafa lagt fram mikið fje, gert líkama sinn ófæran til vinnu, og fá svo ekkert að gera að náminu loknu. Má sannarlega þessum mönnum vera mikill siðferðislegur þróttur og siðgæði gefið, ef ekki á að verða hætta á því, að þeir lendi fremur á glapstigum og gripi til óyndisúrræða, heldur en hinir, sem fulla hafa líkamskraftana, og strax komast að lífvænlegri atvinnu. Mun því heppilega ráðið að þrengja fremur en rýmka inntökuskilyrðin. Það er í almæli, að mentaskólinn hefir að undanförnu tekið við alt of óþroskuðum mönnum, mönnum, sem þar af leiðandi hafa eigi getað náð þar þeim andlega þroska, sem nægilegur er til undirbúnings háskólanáms. Er mjer líka vitanlegt, að nú er á háskólanum fjöldi stúdenta, sem aldrei, eða mjög sjaldan, koma í tíma hjá kennurum sínum, en leggja því meiri stund á önnur fræði hjá „professores extraordinarii“ í allskonar byltingastefnum, og að fá syndaflóð af þeim lærðu mönnum út yfir landið, því óar mjer við, og það hefir gert mig enn hræddari við allan þennan stúdentafjölda.

Jeg segi þetta ekki til þess að álasa hinum ungu mönnum nje kennurunum við skólana, því þeir eiga engan þátt í því að breiða út þessar banvænu kenningar fyrir þjóðfjelagið.

Það verður sjálfsagt mikið verk að bæta úr öllum þeim glundroða, sem er í öllum skólamálum vorum. Nú er ástandið orðið svo, að mæðurnar þykjast varla geta kent börnum sínum „faðirvorið“ í heimahúsum, auk heldur meira, en verða að láta þau ganga í skóla til að læra það. Það er illa komið, þegar svo er, því hjer á landi hefir heimilisfræðslan reynst þjóðinni notadrýgst. Jeg bið ekki afsökunar á því, þótt jeg þyki tala hjer sem afturhaldsmaður á þessu sviði, því mjer þykir hreint heiður í því að heita svo nú á tímum. Jeg álít, að þess sje brýn nauðsyn að stöðva margar þær óheillaöldur í kenslumálunum, sem eru nú að ganga yfir land vort, og koma fræðslumálunum í heillavænlegra horf. Jeg verð að álíta, að ávextirnir af öllu þessu mentunartildri sjeu sorglega litlir. Margir þessara skólagengnu manna, eldri og yngri, eru í raun og veru engu mentaðri en þeir menn, sem aldrei hafa komið í neinn skóla, og er þó ekki fallegt frá að segja nje skemtilegt til þess að vita, að svo sje. Það er ekki nægilegt að vera bara skólagenginn. Menn verða að hafa lært þar eitthvað, sem að gagni kemur í lífinu.

Það er annars leiðinlegt, að minni hl. nefndarinnar skuli ekki hafa getað orðið meiri hl. nefndarinnar samferða, því þótt málið yrði aldrei afgreitt á þessu þingi, þá hefði það orðið til að flýta fyrir því. En verði þessi dagskrá, sem nú er á döfinni samþ., þá hefir þingið þar með vísað málinu frá sjer um lengri eða skemmri tíma. — Að það sje meiningin að bíða eftir till. nefndarinnar í þessu máli, er bara viðbárur.

Jeg skal svo ekki þreyta hv. deild á því að ræða þetta frekar. Jeg get ekki talað um þetta efni af sömu þekkingu og þaulvanir skólamenn, en jeg hefi þó öðlast talsverða lífsreynslu af þeim afleiðingum, sem þetta fyrirkomulag hefir haft í för með sjer, og jeg verð að segja það, að sú lífsreynsla hefir ekki orðið til þess að gera mig hreykinn af ástandinu, eins og það er nú. Öll vor fræðslumál þurfa bóta við.