26.02.1921
Neðri deild: 9. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (2986)

44. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Sú tilhögun hefir ekki reynst heppileg, að megnið af seðlaútgáfu Íslandsbanka allmörg síðastliðin ár hefir verið samkvæmt heimildum, er gilt hafa um stutt skeið í senn, og stundum með bráðabirgðalögum. Því hefir bankinn ekki ávalt getað verið eins viðbúinn því hlutverki sínu, að sjá fyrir nægum verðmiðli eftir þörfum viðskiftanna, sem skyldi, og ekki eins vel útbúinn með fastan og ríflegan málmforða eins og ef hann hefði haft seðlaútgáfurjettinn fastbundnari til langs tíma. Bankinn hefir ekki viljað hætta á að leggja í kostnað við prentun seðla, nje heldur fastan gullforða, þegar hann hefir ekki verið viss um að halda útgáfurjettinum áfram. Þetta kom ljóst fram í sumar, er skortur varð á seðlum, en bankinn gat afsakað sig að nokkru leyti með því, að hann hefði ekki haft útgáfurjett eftir viðskiftaþörfinni, nema árlangt í senn. Nú hefir hann útgáfurjett einungis til 1. maí næstkomandi.

Þessu átti að kippa í lag á Alþingi 1919, og var það eftir áskorun Alþingis 1917, á þann hátt, eins og kunnugt er, að Landsbankinn fengi útgáfu þeirra seðla, sem viðskiftaþörfin krefði, fram yfir 21/2 miljón, sem Íslandsbanki hefir samkvæmt sínum upphaflegu lögum.

Till. stjórnarinnar í þessu efni gengu nú samt ekki fram á Alþingi 1919, eins og kunnugt er. Samningakjörin við Íslandsbanka þóttu ekki aðgengileg, og þó var engu siður hitt, að Landsbankanum þótti eigi fært að taka að sjer aðalforstöðu peningamálanna þegar í stað, eins og tekið var fram í nál. meiri hl. fjárhagsnefndar. Niðurstaðan varð því sú, að halda sama bráðabirgðafyrirkomulaginu og verið hafði að undanförnu, og gildir það einungis til 1. maí þ. á.

Þess vegna er óhjákvæmilegt, annað hvort að framlengja þetta sama fyrirkomulag, ellegar koma á nýju og betra skipulagi. Þetta síðartalda telur stjórnin alveg nauðsynlegt, ef ekki óhjákvæmilegt, samkv. því sem tekið er fram í athugasemdunum.

Fyrirkomulagið samkvæmt frv. telur stjórnin hið heppilegasta. Við nánari athugun hefir stjórninni orðið ljóst, að hve nær sem að því kemur, að Íslandsbanki skilar af sjer seðlaútgáfurjettinum, og þótt það verði í lok sjerleyfistímans, mun hann þurfa nokkur ár til að draga inn seðla sína. Og hvenær sem Landsbankinn tekur við seðlaútgáfunni, er honum hagkvæmara að þurfa eigi í einum rykk að taka að sjer það hlutverk að fullnægja allri seðlaþörf landsmanna. — Landsstjórnin hefir auðvitað borið sig saman við stjórnir beggja bankanna um þetta frv., eða fyrirkomulagið, sem er ráðgert í því, og þótt hún frá hvorugri hliðinni hafi fengið óskorað samþykki í öllum atriðum, þá býst stjórnin ekki við því, að ósamþykki þessara stofnana verði málinu til fyrirstöðu.

Jeg álít ekki ástæðu til að fara lengra út í málið að sinni. Jeg tel víst, að því verði vísað til bankamálanefndar, þótt jeg annars hafi ætlast til, að það fari til fjárhagsnefndar. Ætla því ekki að gera það að till. minni.

Ýms smærri atriði þessu máli viðkomandi tel jeg ekki fallin til umr. hjer. En stjórnin mun verða til taks að gefa allar upplýsingar, sem nefndin þarfnast.