26.02.1921
Neðri deild: 9. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (2988)

44. mál, seðlaútgáfuréttur o. fl.

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg ætla ekki að svara hv. 2. þm. Reykv. (J. B.), enda er ekki ástæða til þess að vekja miklar umr. um málið á þessu stigi, því það mun einnig yfirleitt verða rætt mest í nefnd. En hv. þm. (J. B.) talaði þó svo ókunnuglega um ýms atriði þess, að jeg verð að andmæla því að nokkru, þar sem mjer eru þau kunnari en honum, enda er jeg sannfærður um það, að dómur sögunnar um þetta mál og meðferðina á Íslandsbanka að undanfömu verður allur annar en hv. þm. (J. B.) virðist gera ráð fyrir.

Jeg skal svo víkja að höfuðstefnu frv., sem hv. þm. (J. B.) taldi þá, a ð fara vel með Íslandsbanka, í stað þess, að átt hefði að fara öðruvísi með hann. Jeg vil þó undirstrika það, að hjer er stigið mikilsvert spor í peningamálum landsins, með því, að Íslandsbanki afsali sjer seðlaútgáfurjettinum, sem hann hefir einkarjett á, að undanteknum þeim 750 þús., sem Landsbankinn hefir. En í þessu máli er á margt að líta, og þarf að fara lempilega í það fyrir báða aðilja, Íslandsbanka að skila af sjer og Landsbankann að taka við. Og þetta atriði, um afsal seðlaútgáfurjettarins, er aðalatriði málsins.

Hitt, sem hv. þm. (J. B.) talaði um, er í rauninni aukaatriði, eins og nú stendur að minsta kosti. Um hlutafjáraukninguna er það t. d. að segja, að það er í sjálfu sjer deila um keisarans skegg, því nú sem stendur eru litlar horfur á því, að hægt verði að fá selda 41/2 miljón í hlutabrjefum Íslandsbanka. En hitt vil jeg segja, að ef það væri tækilegt nú, væri síst ástæða til að amast við því, — það mundi beinlínis hjálpa til að bjarga landinu.