18.02.1921
Efri deild: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (3000)

17. mál, fátækralög

Björn Kristjánsson:

Jeg vil leyfa mjer að leiða athygli hv. þdm. að einu atriði. Á þingmálafundum í kjördæmi mínu skýrði jeg frá efni þessa frv., og varð jeg þá var við óánægju yfir því, hve hækkunin á að vera mikil. Menn töldu ekki mikla ástæðu til þess að fara að breyta þessu nú, þar sem von er um lækkandi verðlag og þar af leiðandi verðhækkun peninganna.

En það var annað atriði, sem líka olli óánægju. Það er misrjettið, sem felst í þessu ákvæði fátækralaganna, og úr því bætir ekki þetta frv., sem hjer liggur fyrir.

Sum sveitarfjelög hafa aðeins einn eða tvo sjúklinga fyrir að sjá á sjúkrahúsum og njóta styrks fyrir þá. Önnur hafa marga og njóta styrks fyrir tvo. Það var stungið upp á að fella burt styrk fyrir fyrsta sjúkling og jafnvel annan líka, en styrkja þá, sem fram yfir væru. Þetta er fyllilega sanngjörn krafa. En til þess þarf meiri lagabreytingu og upplýsingar um fjölda sjúklinga, svo að hægt verði að sjá, hver áhrif þetta hefði á fjárhaginn.

Jeg vildi aðeins skjóta þessu til nefndarinnar, sem fær málið til meðferðar. Jeg veit ekki hvaða nefnd það verður. (Forseti: Fjárhagsnefnd). Þá veitist ekki örðugt fyrir mig að ná í hana.