19.02.1921
Efri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í C-deild Alþingistíðinda. (3011)

33. mál, laun embættismanna

Fjármálaráðherra (M. G.):

Í sambandi við frv. þetta skal jeg geta þess, að ef fjárhagur landsins hefði verið góður, þá væri full ástæða til að breyta launalögunum og dýrtíðaruppbót sumra embættismanna. En eins og sakir standa, hefir stjórnin ekki sjeð sjer fært að leggja til neinar breytingar, sem miða að því að auka útgjöld landssjóðs. — Vonandi fer nú dýrtíðin að minka, og þar sem breytingar á dýrtíðaruppbótinni koma jafnan til að elta verðlækkun nauðsynja, þá vinna embættismenn smám saman talsvert af því, sem þeir töpuðu, meðan dýrtíðin var í vexti.

Að öðru leyti hefi jeg ekki annað um frv. þetta að segja en það, sem sagt er í aths. við það. Er vonandi, að afgreiðsla þess taki ekki langan tíma. Með því að mjer virðist það helst eiga heima í allsherjamefnd, þá geri jeg það að till. minni, að því verði vísað þangað.