21.02.1921
Efri deild: 5. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (3014)

42. mál, sóknargjöld

Forsætisráðherra (J. M.):

Vera má, að fult eins rjett væri, að frv. þetta kæmi frá fjármálaráðherra, enda er það runnið undan hans rifjum. En það hefir orðið að samkomulagi, að jeg bæri það fram, af því að kirkjumálin heyra undir mig, á líkan hátt og atvinnumálaráðherra ber fram frv. um hækkun á pósttekjum. Það er því meiri ástæða til, að frv. sje svo fram borið, sem það hefir í sjer fólgna ekki einungis hækkun sóknargjalda, heldur og tilsvarandi hækkun kirkjugjalda, en hið síðara atriði kemur meir við kirkjumálastjórninni en fjármálastjórninni. Að því leyti má segja, að fjármálastjórnin og kirkjumálastjórnin eigi frv. í fjelagi.

Með hinum almennu launalögum frá 1919 hafa gjöld ríkissjóðs til starfsmanna ríkisins aukist gífurlega, og ekki er minst hækkunin á launum prestanna. En sóknargjöldin, sem í viðbót við tekjur af kirkjueignunum áttu að bera uppi prestslaunin að mestu leyti, voru látin standa í stað. Það er því auðsætt, að annaðhvort verður að hækka sóknargjöldin eða taka launaviðbótina annarsstaðar að, eða hvorttveggja.

Þegar það er athugað, að áætluð gjöld ríkissjóðs eru tæpar 9 miljónir, þótt sparlega sje til tekið, en tekjurnar tæpar 7 miljónir, þá er það auðsætt, að einhvern veginn verður að fá viðbót við tekjurnar. Þessa viðbót á nú að fá að miklu leyti með þeim tekjufrv., sem lögð hafa verið fyrir þetta þing. En þegar þess er gætt, að tiltölulega miklu meiri hluti teknanna fer nú til launa og annara lögmæltra gjalda en áður, þá er það eðlilegt, að fyrst verði fyrir að halda þeim tekjustofnum, sem sjerstaklega hafa verið til þess ætlaðir að standast að meira eða minna leyti kostnaðinn af ákveðnum launum, og auka þá heldur. Þessi leið er farin, að því er sóknargjöldin snertir, í þessu frv., sem biskup hefir samið að tilhlutun stjórnarráðsins. Hjer er lagt til, að sóknargjaldið sje tvöfaldað; að í stað 1,50 kr. á hvern sóknarmann, 15 ára eða eldri, komi 3 kr.

Nú hefir þetta gjald, sem kallað hefir verið nefskattur, af því að það var lagt jafnt á ríka og fátæka, verið óvinsælt, reyndar meir fyr en hin síðustu árin, því að gjaldið er nú lítt tilfinnanlegt, vegna lækkunar á kaupmagni peninga. Því er sú leið farin í frv., að láta aðeins helming hins fyrirhugaða gjalds vera persónugjald, en jafna hinu niður eftir efnum og ástæðum, eða með öðrum orðum jafna þannig niður viðbótinni. Þvílíkt niðurjöfnunargjald er í rauninni rjettlátasta gjaldið, ef matið á efnum og ástæðum tekst. Sýnir biskup fram á það í athugasemdunum, að ef hækkað er þannig sóknargjaldið, aukast gjöld ríkissjóðs ekki stórum við hækkunina á föstum launum presta. Auðvitað verður þar fyrir utan dýrtíðaruppbótin, sem ríkissjóður leggur af mörkum án sjerstakrar endurborgunarkröfu á söfnuðina. Þannig yrði bæði hækkað hið sjerstaka sóknargjald, og meira lagt á hinar almennu tekjur, vegna launahækkunar presta.

Tilsvarandi hækkun á kirkjugjöldunum er einnig farið fram á í frv. þessu og á sama hátt sem hækkun sóknargjalda. Kirkjugjöldin er þannig lagt til að hækki úr 75 aur. upp í kr. 1,50, og hækkunin verði niðurjöfnunargjald. Reynslan hefir orðið sú, að kirkjugjöldin hafa víðast hvar ekki hrokkið til nauðsynlegustu gjalda kirknanna, svo að ekki einungis hefir orðið að gripa til hækkunar hins lögskipaða gjalds, heldur og orðið að grípa til sjóðseignar viðkomandi kirkju í hinum almenna kirkjusjóði, eins og biskup tekur fram í athugasemdum sínum. — Að öðru leyti segir biskup svo um þetta gjald, að það muni vera orðin allalmenn ósk innan safnaðanna, að kirkjugjaldið verði hækkað, svo ótvíræð reynsla sem fengin sje fyrir því, að tekjurnar hrökkvi ekki fyrir gjöldum kirknanna, enda hafi kirkjustjórninni borist úr ýmsum áttum óskir þar um, bæði frá synodus og hjeraðsfundum, og jafnvel frá safnaðarfundum.

Jeg býst við því, að þetta frv. geti, eftir efni og tilgangi, átt heima í allsherjarnefnd, en ef hæstv. forseta kynni að sýnast, að fjárhagsnefnd ætti heldur að athuga það, þá hefi jeg ekkert þar við að athuga.