12.05.1921
Efri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (3025)

19. mál, vatnalög

Frsm. meiri hl. (Jón Þorláksson):

.............. *)•

Samkvæmt vatnalagafrv., 39. gr., 2. lið, verða menn að greiða „fullar bætur“ fyrir áveituvatn á jarðir sínar, ef vatnið þarf að sækja út fyrir landareign áveitujarðar, „ef orkunytjum vatns eða möguleika til orkunytja þess er spilt með vatnstöku til áveitu“ (aths. stjórnarinnar við 39. gr. 2. lið). En eftir núgildandi lögum hafa menn rjett til slíks vatns ókeypis. Hvorki frv. nje aths. gera neina grein fyrir, hvað teljast megi „fullar bætur“ fyrir spjöll á „möguleikum til orkunytja“, heldur er það lagt leiðbeiningalaust á vald matsmanna, og er þá ekki líklegt, að metið verði lægra en sem svarar því, er eigandi hefir kostað til fallvatns þess í heild, sem spilt er með áveitunni, og hve miklum hluta af „möguleikunum til orkunytja“ spjöllin nemi.

Til skýringar því, hvaða þýðingu slík ákvæði geti haft fyrir áveitufyrirtæki hjer á landi, skal jeg lýsa afstöðunni eins og hún er við tvær af stærstu áveitunum hjer, Flóaáveituna fyrirhuguðu og Miklavatnsmýraráveituna, sem þegar er komin í framkvæmd.

Flóaáveitan á að fá vatn sitt úr Hvítá, en vatnið rennur ekki út í ána aftur af áveitusvæðinu, eða þá ekki fyr en niður undir sjávarmáli. Fallhæð Hvítár og Ölfusár frá áveituupptökunum til sjávar nemur um 30 metrum, og áveituvatnið getur numið eða meira af minsta rensli Hvítár, og líklega alt að af meðalrensli hennar. Eftir stjórnarfrv. yrði Flóaáveitan skaðabótaskyld til allra vatnsrjettindaeigenda við Hvítá og Ölfusá fyrir neðan áveituupptökin, vegna minkunar á „möguleikum til orkunytja“, og mundi minkun sú, sem bæta þyrfti, líklega nema alt að 5000 hestöflum. En auk þess mundi sú áveita þurfa að bæta önnur spjöll á „möguleikum til orkunytja,“ miklu stórfeldari. Svo hagar landslagi við Hvítá, að hentugt er að nýta nálægt 20 metra fallhæð í ánni, sem liggur að mestu leyti fyrir ofan áveituupptökin og að litlu leyti fyrir neðan þau, með því að taka ána úr farvegi sínum, veita henni inn í Hestvatn og úr því aftur gegnum jarðgöng út í farveg árinnar nokkru fyrir neðan upptök Flóaáveitunnar. Með engu öðru móti en þessu er unt að virkja umrædda fallhæð Hvítár svo að svari kostnaði. En slík virkjun færir vatnið úr farveginum, svo að Flóaáveitan nær alls ekki til þess. Áveitan þyrfti því, til þess að tryggja sjer vatnið, að borga fyrir spjöll á þessum möguleikum til orkunytja. En hve miklu mundu spjöllin nema? Einhver kynni að ætla, að nægja mundi að borga rýrnun á vatnsmegni orkuversins, sem svaraði því, að áveituvatnsmegninu væri leyft að renna eftir eðlilegum farvegi árinnar. En það væri ónóg fyrir áveituna. Aðalskurður hennar og mannvirki hans miðast við það vatnsborð í ánni, sem nú er og verið hefir við áveituupptökin. Ef eðlilegt vatnsmegn árinnar á þessum stað væri skert svo, að ekki yrði eftir nema sem svaraði áveituvatninu sjálfu, þá lækkaði vatnsborð árinnar við áveituupptökin svo mjög, að ekkert rynni inn í áveituskurðinn, eins og hann hefir verið fyrirhugaður. Til þess að áveitan fái vatn sitt þarf eðlilegt vatnsborð að haldast á ánni, en þá verður virkjun á umræddum 20 metrum fallhæðarinnar ómöguleg, og þyrfti þá áveitan að borga fullar bætur fyrir þau h. u. b. 50,000 hestöfl, sem svara til þeirrar fallhæðar og vatnsmegnsins í Hvítá. Að öðrum kosti yrði að breyta fyrirhuguðum mannvirkjum áveitunnar, svo að áveitan gæti hagnýtt sjer lækkað vatnsborð í Hvítá, eða að gera sjerstök mannvirki við ána, til þess að færa vatnið inn í áveituskurðinn, þrátt fyrir minkað rensli árinnar. Mannvirki þessi yrði áveitan að kosta, ef fara skyldi eftir rjettarreglum stjórnarfrv., og þá auk þess greiða bætur fyrir rýrnun á vatnsmegni orkuversins.

Eftir rjettarreglum stjórnarfrv. ætti Flóaáveitan því um tvent að velja, sem sje:

annaðhvort að borga matsverð fyrir minkun á möguleikum til orkunytja neðan við áveituupptökin, sem svarar 5000 hestöflum, og fyrir ónýtingu á möguleikum til orkunytja fyrir ofan upptökin, sem nemur um 50,000 hestöflum, eða að borga hina fymefndu rýrnun fyrir neðan upptökin, 5000 hestöfl, og rýmun fyrir ofan upptökin, sem nemur ámóta miklu, og kosta mannvirki til þess að hagnýta áveituvatnið úr farvegi Hvítár, þótt ekki sje meira vatnsmegn orðið þar eftir en áveituvatnið sjálft.

Ómögulegt er að segja um að órannsökuðu máli, hvor kosturinn yrði ódýrari fyrir áveituna, en báðir mundu baka henni mjög tilfinnanleg fjárútlát.

Eftir núgildandi lögum og eftir frv. meiri hl. fossanefndarinnar er það ótvírætt, að Flóaáveitan á rjett til vatns úr Hvítá ókeypis, og að eftir að áveitan er komin í framkvæmd má enginn bótalaust breyta vatnsborði Hvítár, svo að áveitan af þeirri sök missi neins af því vatni, sem mannvirkjum hennar er ætlað að taka við. Hún er því ekki bótaskyld fyrir rýrnun á „möguleikum til orkunytja“ fyrir neðan upptök, og sá, sem vildi virkja umrædd 50,000 hestöfl, eftir að áveituverkið væri komið í kring, yrði á sinn kostnað að gera þau mannvirki, er þarf til þess, að áveitan geti haldið áfram að ná vatni sínu úr farveginum, og hann yrði endurgjaldslaust að sleppa svo miklu vatni í núverandi farveg árinnar, sem áveitan þarf og mannvirki hennar eru ætluð fyrir.

Mjer virðist því vera augljóst, að stjórnarfrv. gerir hjer stórkostlega breytingu á núverandi rjettargrundvelli. Hvort sú breyting í reyndinni muni ná til þessa sjerstaka fyrirtækis, skal látið ósagt, en hæpið þykir mjer, að ákvæði Flóaáveitulaganna einna saman mundi nægja til þess að gera þessa einstöku áveitu undanþegna almennri rjettarreglu vatnalaga, ef þau yrðu í gildi gengin áður en áveituverkið er hafið.

Miklavatnsmýraráveitan fær vatn úr Þjórsá á flatlendi fyrir neðan alla fossa. Vatnshæð árinnar er ekki meiri en það, að vatn næst einungis þá í áveituskurðinn, þegar mestir vextir eru í ánni. Fyrsti áveituskurðurinn mishepnaðist algerlega, vegna þess, að reynslan sýndi, að áin óx ekki svo mikið, að vatnið rynni í skurðinn. Svo var gerður annar skurður, og lánaðist betur, en þó má engu muna um vatnshæðina í ánni, svo að áveitan komi að notum. Nú hafa verið gerðar áætlanir um virkjun Þjórsár, og er auðvitað gert ráð fyrir renslisjöfnun svo mikilli, sem landslagið frekast leyfir. En renslisjöfnun, ef hún er nokkuð víðtæk, hefir einmitt fyrst og fremst það í för með sjer, að vorvextirnir minka. Ef Miklavatnsmýraráveitan hefði verið framkvæmd við þann rjettargrundvöll, sem stjórnarfrv. markar, þá hefir áveituverkið orðið að borga bætur fyrir þau spjöll á „möguleikum til orkunytja“, sem samsvara renslisjöfnuninni í Þjórsá. Samkvæmt þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið, má vinna nærfelt 1 milj. héstafla úr Þjórsá; ef renslisjöfnun er burt feld, lækkar hestaflatalan svo nemur hundruðum þúsunda, og mundu verða metnar bætur fyrir slíkt, sem áveitan væri alls ekki fær um að borga. Hún væri óframkvæmanleg á rjettargrundvelli stjórnarfrv. Engum blandast hugur um það, að samkvæmt núgildandi rjettargrundvelli þarf áveitan ekkert að borga fyrir spjöll á möguleikum til orkunytja. Ef virkjendur árinnar vilja framkvæma renslisjöfnun, og þar með taka vatnið frá áveitunni, þá verða þeir, samkvæmt núgildandi lögum, að bæta áveitunni allan halla af því, t. d. með því að kosta mannvirki til þess að veita vatni í áveituskurðinn, þrátt fyrir lækkað vatnsborð.

Þessi dæmi læt jeg nægja. Um flestar áveitur, sem hafa verið gerðar eða gerðar verða, er að einhverju leyti líkt ástatt og þessar tvær. Þessi dæmi nægja til að sýna fram á, að rjettargrundvöllur stjórnarfrv. er allur annar en rjettargrundvöllur núgildandi löggjafar.

(Ræðumaður hafði ekki lokið máli sínu er hjer var komið, en þá var fundi frestað og málið tekið út af dagskrá, og kom ekki á dagskrá aftur á þinginu).

* Vantar alllangan kafla framan af ræðunni, frá hendi innanþingskrifarans. J. Þ.

Frv. varð

ekki útrætt