10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (3054)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Sigurðsson:

Mjer þykir leitt, hvernig hv. allshn. hefir snúist við þessu frv. Mjer virðist breytingin, sem frv. gerir ráð fyrir, sjálfsögð og eðlileg.

Þegar þingið 1919 breytti 36. gr. sveitarstjórnarlaganna á þann veg, sem hún er nú, þá mun það hafa haft fyrir augum ákveðnar staðreyndir, þær, að í nánd við kaupstaðina væri ein eða jafnvel fleiri jarðir, sem kaupstaðarbúar hefðu náð eignarhaldi á, hefðu þar enga ábúð, en nytjuðu, og það aðallega til slægna, án þess að sveitarfjelagið gæti lagt nokkuð á eigendurna eða afnotin. Á móti þessum aðförum mun breytingin hafa verið fyrst og fremst stíluð; það sjest best á umræðunum í Ed., því þar segir hv. frsm. að hann vonist eftir, að lögin verði ekki skilin á þann veg, að lagt verði á menn útsvar, þótt þeir fái slægjur lánaðar handa skepnum sínum. Jeg get hugsað, að ýmsum hv. þm. hafi verið talsvert rík í huga hætta sú, er einstökum sveitarfjel. kynni að stafa af kaupstöðunum, sem áður er getið um, svo að þá hafi í svipinn ekki brugðið fyrir öðrum dæmum. En hjer er líka á aðra hlið að líta í þessu máli, og það er einmitt hún, sem jeg vil reyna að draga lítils háttar fram til athugunar. Um leið og ákveðið var, að lagt skyldi á slægjuafnot, þótt engin ábúð fylgdi, gátu hreppsnefndir lagt á alla utansveitarmenn, sem fengu lánaðar slægjur í hreppnum. Þar, sem jeg þekki til, eru þetta í venjulegu árferði oftast fátækir kaupst.búar, sem slægjast eftir heyskap handa kú og nokkrum kindum, til þess að geta veitt börnum sínum mjólk og yfirleitt hollara og betra fæði, enda mun það sannanlegt, að einmitt þessi mjólkurdropi hefir aðallega haldið lífinu í þeim suma veturna, og er óviðeigandi, að slík viðleitni sje höfð að skattstofni.

Enn fremur eru það bændur á harðbalakotum, sem stundum verða að leita á náðir annara hreppa um heyöflun.

Fyrir slægjuafnotin mun greitt alt að 5 kr. undir útheyshestinn, eftir staðháttum og heygæðum. Í flestum tilfellum er það eigandinn, sem jafnframt er ábúandinn, sem slægjurnar lánar og hefir beinar tekjur af engjaláninu. Það mun rjett vera, sem hv. frsm. (P. O.) sagði, að það getur verið talsverður gróðavegur að taka engjastykki á leigu og selja svo heyaflann, en í flestum tilfellum mun þó aðalgróðinn verða hjá þeim, sem slægjurnar lánar. Þess munu nokkur dæmi, að einstöku bændur láni engjar fyrir 1–3 þús. kr. á ári, og á nokkrum stöðum, þar sem engjalönd eru víðáttumikil af náttúrunnar hendi, hafa lönd sem áður voru ónotuð eða sem bithagi, verið lánuð út til slægna, og reynst gott engi, án þess að hlutaðeigandi bóndi hafi þurft að takmarka bú sitt eða kosta nokkru til. Fyrir þá menn er þetta.

Á þessar tekjur á að leggja, en ekki elta ólar við alla, sem fá slægjublett lánaðan. Ef gengið er út frá því, að lagt sje á tekjur, þá getum við hugsað okkur, að bóndi hafi bú. Þá lætur hann skepnur sínar breyta heyinu í verðmæti, og á þær tekjur er lagt. En við getum líka hugsað okkur, að hann láni út engi, og þá fær hann þetta sama verðmæti, aðeins á annan hátt. Það er sem slægjutollur. Og jeg skal geta þess, að síðastliðið ár var mikið lánað af engjum, og mörgum hyggnum búmönnum þótti það borga sig betur, innan vissra takmarka. Ef svo væri, þá hljóta allir að sjá, að hjer er ekki um nein uppgrip að ræða. Og þegar það er tekið með í reikninginn, að sá maður, sem verður að fá sjer lánaðar slægjur, á miklu verri aðstöðu á allan hátt en sá, sem á jörðinni býr, bæði að því er snertir heyflutning og alla aðra þá örðugleika, sem leiða af því að þurfa að „liggja við“, eins og kallað er; þá verður manni að spyrja: Á hvað á að leggja hjá leigjanda? Samkvæmt sveitarstjórnarlögunum á að leggja á arðsama atvinnugrein. En eins og sjest, þá er hjer alls ekki um arðsama atvinnugrein að ræða fyrir þá, sem fá lánaðar slægjur, heldur fyrir hina, sem selja þær á leigu, og er það þó síður en svo, að slík ákvæði væru mjer í hag, þar sem jeg leigi sjálfur burt mikið af slægjum, en á okkur á fyrst og fremst að leggja. Til þess nú að gera sveitarfjelögunum engan órjett og til þess, að fullkomin sanngirni komi fram, þá hefi jeg stungið upp á þeirri miðlunartill., að ef jörð er lögð í eyði og eigandi eða leigusali slægna er utanhrepps, þá er hreppsnefndinni gefið leyfi til þess að leggja á slægjuafnotin, því þá getur hreppsnefndin ekki náð til þeirra tekna, sem leigusali fær til álagningar. Sje leigusali slægna aftur á móti búsettur í hreppnum, eða aukaútsvarsskyldur, er útsvarið lagt á tekjur hans af slægjuláninu. Jeg vil þess vegna fullyrða, að sveitarfjelögin missi einskis við, þótt þessi breyting verði, af eðlilegum og rjettmætum tekjum.

Hv. nefnd hefir haft ýmislegt að athuga við frv. mitt, og hlýtur svo að vera, þar sem hún svo eindregið vill hefta framgang þess. Fyrst getur hún þess, að þegar slægjulönd væru leigð út, þá seldu leigjendur oft mikið hey og hefðu hagnað af því. Það má vel vera, að svo sje einhversstaðar, en jeg þekki engin dæmi til þess. En við lagasmiði er mjög varhugavert að elta ólar við einstök tilfelli. Það getur vitanlega oft hent, að einhverjir selji land á leigu til slægna fyrir óhæfilega lágt verð, og því verði á litlar tekjur að leggja, en við því verður ekki spornað, fremur en því, að sumir menn verða alla sína æfi ráðleysingjar. Hreppsnefndirnar verða að leggja á slíka menn eftir gjaldþoli.

Þá segir nefndin, að hjer sje ekki verið að leggja aukin gjöld á menn, því þeir greiði þeim mun minna útsvar í sínum eigin hreppi, sem á þá er lagt annarsstaðar. Þetta þykir mjer nokkuð fljótfærnislega sagt. Jeg vii þá fyrst benda hv. deild og hv. nefnd á það, að um leið og lagt er útsvar á menn, þá minkar gjaldþol þeirra að sama skapi, en þarfir hreppsins eru jafnmiklar fyrir það, hvort menn fá slægjur innan sveitar eða utan. Það þarf jafnt að fullnægja þörfum hreppsins, þótt svo væri, að helmingur hreppsmanna fengi slægjur utansveitar og greiddi þar helminginn af sínum útsvörum. Afleiðingin verður sú, að útsvörin hljóta að hækka, bæði á þeim, sem slægjumar fengu, og hinum, sem heyjuðu heima. Það eru kaupstaðabúarnir, sem einkum verða að leita út fyrir hreppinn og verða því harðast úti, eins og áður er sagt. Þetta væri hægt að sanna með einföldu reikningsdæmi.

Þá getur nefndin þess, að altaf sje hægt að kæra. Það er mikið rjett, en jafnvíst er það, að mjög margir vilja heldur liða órjett en að standa í slíku stappi.

Þá kem jeg að því atriði, sem nefndin virðist telja grundvallarástæðuna fyrir andstöðu sinni gegn þessu frv., og nál. byggist á, að þarna sje raskað meginreglu sveitarstjórnarlaganna, sem sje sú, að leggja útsvar á sjálfstæðan atvinnurekstur. Jeg mótmæli því algerlega, að 36. gr. fylgi slíkri reglu. Þar stendur: „Ekki er heimilt að leggja aukaútsvar á útvegsmenn úr öðrum hreppi í sama sýslufjelagi eða við sama fjörð eða flóa, sem útræðið er í, ef á þá er lagt útsvar í sveitarfjelagi þeirra.“ Ef þetta er ekki sjálfstæður atvinnurekstur, sem hjer er um að ræða, þá veit jeg ekki, hvað er sjálfstæður atvinnurekstur. Og þótt aðeins væri um uppsátur að ræða og aðgerð á afla, þá yrði það að teljast sjálfstæður atvinnurekstur. Jeg fer því aðeins fram á það, að slægjuafnot verði sett hliðstæð við þetta ákvæði. Þess vegna er hjer ekki um neitt brot að ræða á einhverri meginreglu, því hafi hún átt að vera, þá brýtur greinin hana sjálf með áðurnefndu ákvæði, og jeg vænti þess, að hv. deild liti með meiri sanngirni á þetta mál en hv. allshn.

Jeg skal þá ekki fjölyrða meira um þetta að sinni. Ef til vill gefst mjer tækifæri til að fara nokkrum fleiri orðum um það síðar.