10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í C-deild Alþingistíðinda. (3058)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Jón Sigurðsson):

Ef jeg hefði haldið, að svona langar umr. mundu spinnast út af jafnlitlu frv., mundi jeg næstum hafa hikað við að koma fram með það.

Jeg ætla mjer eigi að minnast nema á örfá atriði í ræðu háttv. þm. Borgf. (P. O.).

Hann talaði mjög um það, að jarðir, sem notaðar væru til slægna á þennan hátt, færu í niðurníðslu — jafnvel í auðn. Má vel vera, að þetta geti átt sjer stað. En hvert er læknismeðalið við þessu? Það er ekkert komið fram enn, nema útsvarsálagningin; hún á að bæta úr þessu, en jeg fæ ekki sjeð, að hún bæti neitt úr skák. Þetta er því sagt alveg út í bláinn hjá hv. þm. Borgf. (P. O.).

Hann óskaði skýringar á innskotinu og hvernig það mundi verða framkvæmt. Jeg gat þess lauslega, að þegar einhver jörð væri ekki í ábúð, sem komið getur fyrir, þá mætti leggja útsvar á notanda slægnanna. Búi aftur á móti maðurinn, sem lánar slægjurnar, á jörðinni, eða er búsettur í hreppnum, þá nýtur hann teknanna af slægjulánum, og því fullkomlega sanngjarnt, að hann gjaldi af þeim. Þá vildi hv. þm. (P. O.) gera sjer mat úr því, að Skagfirðingar notuðu sjer neyð annara og tækju 5 kr. undir hestinn. Jeg skal nú ekki dæma um mannkosti Borgfirðinga, en ólyginn sagði mjer, að dæmi mundu til finnast, að þeir tækju annanhvern hest, og mun það síst minna vera. (P. O.: Þetta er ekki rjett).

Háttv. frsm. (P. O.) vildi draga það í efa, að útsvörin dragi úr gjaldþoli manna, og vill jafnvel fullyrða það gagnstæða. Til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni vil jeg benda honum á sumarið 1918. Þá vildi það til í sumum sveitum, sem hafa tómar vallendisengjar, að ekki var eitt högg sláandi á útengi. Fór þá svo, að nálega heil sveitarfjelög urðu að leita út fyrir hreppsfjelagð sitt til þess að fá slægjur, mest sinuflóa, sem tæpast höfðu verið slegnir í manna minnum. En sem betur fór, voru þessi lög þá ekki í gildi, því þá hefðu heil sveitarfjelög orðið að borga fyrst og fremst útsvar í öðrum hreppum, auk útsvaranna í sínum eigin hreppi, í ábæti á alt það tjón, er þessir menn urðu fyrir af því að þurfa að kaupa slægjur langt að, flutning á heyi og margt fleira. Það er vonandi að slíkt sumar komi ekki fyrir meðan núgildandi álagningarákvæði eru í gildi. Það væri að bæta gráu ofan á svart.

Jeg ætla ekki að ræða þetta frekar. Býst við, að við hv. þm. Borgf. (P. O.) sannfærum hvorugir annan, þó að við hjeldum áfram.