10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í C-deild Alþingistíðinda. (3060)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg stend upp aðeins til að sýna það, að harðmæli hv. þm. (P. O.) skaut mjer engum skelk í bringu. Jeg vil benda á, að það er ekkert einsdæmi að breyta lögum frá 1919. Háttv. frsm. (P. O.) hefir sjálfur verið með í því. (P. O.: Launalögunum). Já, þeim og ýmsum öðrum lögum.

Jeg hefi tekið það fram áður, og hv. frsm. (P. O.) viðurkent það, að jeg var því mótfallinn 1919 að skjóta inn því ákvæði, sem nú er tilætlunin að draga úr. Hv. frsm. (P. O.) hefir því enga ástæðu til að tala um ístöðuleysi af minni hálfu. En annars er það misskilningur, að það sje ístöðuleysi að láta sannfærast af reynslunni, en það er þvermóðska að láta aldrei sannfærast. Hvort jeg er stímamýkri við Skagfirðinga en hann við Borgfirðinga skal jeg ekki um dæma, en góðar bendingar vil jeg taka til greina, hvaðan sem þær koma, þótt mjer sje einna kærast að taka þær til greina, ef þær koma frá Skagfirðingum.