17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (3065)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Jón þorláksson:

Mjer þykir það undarlegt rjettlæti, að atvinnufyrirtæki utan hrepps, en í sömu sýslu, skuli ekki vera útsvarsskyld, en útsvarsskyld, ef þau eru ekki í sömu sýslu. Nefni jeg það sem dæmi, að maður úr Borgarnesi, sem engi fær fyrir vestan Hvítá, er ekki útsvarsskyldur, en ef hann fær engi á hinum bakka árinnar, þá er hann útsvarsskyldur, vegna þess, að Hvítá skilur lögsagnarumdæmin. Mætti geta þess til, eftir öðru, sem fram hefir komið hjer á þinginu, að þetta væri til þess gert, að láta Reykvíkinga vera þar útsvarsskylda, sem aðrir landsmenn eru það ekki, því það er alkunna, að Reykvíkingar þurfa ávalt að leita út fyrir lögsagnarumdæmið, til þess að fá slægjur. En jeg er þó svo velviljaður, að jeg held, að ekki sje þetta gert til þess að sýna kaupstaðarbúum viljandi ranglæti, heldur muni þetta vera aðeins missmíð á tillögunni.

Jeg get felt mig við frv. eins og það er, en þessi brtt. nær engri átt, og ef hún verður samþ., þá greiði jeg atkv. á móti frv. þannig breyttu.